Kínversk stjórnvöld hafa samþykkt að skila bandarískum yfirvöldum neðansjávardróna sem sjóliðar á kínversku herskipi lögðu hald á í Suður-Kínahafi á föstudag. Donald Trump, verðandi forseti Bandaríkjanna, segir Kínverjum hins vegar að halda drónanum í enn einu tístinu.
Nokkur spenna hefur verið á milli bandarískra og kínverskra stjórnvalda eftir að kínversku sjóliðarnir veiddu drónann upp úr hafinu beint fyrir framan augun á áhöfn hafrannsóknaskips bandaríska sjóhersins á föstudag. Bandaríkjamenn segja að dróninn hafi verið að safna vísindaathugunum, þar á meðal um hitastig og seltu sjávar.
Frétt Mbl.is: Segja Bandaríkin gera of mikið úr atvikinu
Eftir nokkurt japl, jaml og fuður þar sem kínversk yfirvöld sökuðu bandarísk um að bregðast of hart við atvikinu samþykktu kínversk stjórnvöld að skila drónanum á viðeigandi hátt.
Enginn friðarhugur var hins vegar í Trump sem fór einu sinni sem oftar á Twitter til að segja hug sinn.
„Við ættum að segja Kína að við viljum ekki fá drónann sem þeir stálu til baka, leyfið þeim að halda honum!“ skrifaði verðandi forsetinn.
We should tell China that we don't want the drone they stole back.- let them keep it!
— Donald J. Trump (@realDonaldTrump) December 18, 2016
Kínversk stjórnvöld hafa ekki brugðist við ummælum Trump en þeim var ekki skemmt þegar verðandi forsetinn ræddi við forseta Taívan í síma. Í gær skaut Trump sömuleiðis á Kínverja fyrir að taka drónann og sagði hátterni þeirra fordæmalaust.
Þykja tíst Trump og símtalið við Taívan benda til þess að hann muni fylgja harðlínustefnu gagnvart Kína þegar hann tekur við embætti í næsta mánuði.