Andrei Karlov, sendiherra Rússlands í Tyrklandi var skotinn á listasafni í höfuðborginni Ankara í dag. Er hann alvarlega særður. Nokkrir aðrir nærstaddir særðust einnig í árásinni, en hún var gerð degi eftir mótmæli í Tyrklandi gegn afskiptum Rússlands í Sýrlandi.
Samkvæmt frétt BBC var Karlov fluttur á sjúkrahús þar sem gert er að sárum hans. Haft er eftir tyrkneskum miðlum að Karlov hafi verið að halda ræðu á safninu þegar hann var skotinn í bakið af byssumanni.
Uppfært kl 17:24:
Í frétt Guardian er sagt að byssumaðurinn hafi verið skotinn af lögreglu og vitnað í tyrknesku fréttastofuna NTV. Segir þar að hann hafi verið snyrtilega klæddur og staðið fyrir aftan sendiherrann áður en hann tók upp byssuna og skaut hann. Árásin náðist á myndband, en þar sést meðal annars að byssumaðurinn segir að ekki eigi að gleyma Aleppo og Sýrlandi.