20 manns létust hið minnsta í átökum mótmælenda og öryggissveita í Kinshasa, höfuðborg Lýðstjórnarlýðveldisins Kongó í dag. Efnt hafði verið til mótmælanna vegna þess að Joseph Kabila, forseti landsins neitar að láta af embætti, að sögn embættismanns Sameinuðu þjóðanna í Kongó.
Fréttavefur BBC hefur eftir vitnum á vettvangi að öryggissveitir hafi skotið á mótmælendur í miklu návígi.
Kabila hefur verið forseti Kongó í 15 ár og átti valdatíð hans á forsetastóli að ljúka á miðnætti í gærkvöldi, en var nýlega framlengd til ársins 2018.
Helsti keppinautur Kabila segir ákvörðun hans að láta ekki af embætti, jafngilda valdaráni.
Til stóð að efna til forsetakosninga í landinu í síðasta mánuði, en kjörnefnd frestaði kosningunum og bar við efnahags- og skipulagslegum vanda við að skipuleggja kosningarnar.
Kabila hefur nú myndað millibilsstjórn sem á að fara með völdin í landinu þar til kosið verður árið 2018.