Kanslari Þýskalands, Angela Merkel, segir að yfirvöld telji að um hryðjuverkaárás hafi verið að ræða þegar flutningabíl var ekið inn á jólamarkað í Berlín í gærkvöldi. Hún segir að allt bendi til þess að árásarmaðurinn sé hælisleitandi og það sé erfitt að sætta sig við.
„Miðað við það sem við vitum verðum við að ganga út frá því að þetta sé hryðjuverkaárás,“ sagði Merkel þegar hún ávarpaði fréttamenn svartklædd fyrir skömmu. Merkel var sjáanlega slegin yfir fregnunum, að því er segir í frétt AFP. Merkel heimsækir jólamarkaðinn síðar í dag.
„Ég veit að það verður sérstaklega erfitt fyrir okkur að sætta okkur við það ef það verður staðfest að manneskjan sem framdi árásina hafi sótt um vernd og hæli í Þýskalandi,“ bætti hún við.
Merkel segir að Þjóðverjar verði að finna styrk til þess að halda áfram að lifa lífinu eins og þeir vilja, í frjálsu og opnu samfélagi saman.
Milljónir, þar á meðal hún, spyrji sig nú hvernig hægt sé að lifa með þá staðreynd að á sama tíma og fólk fái sér göngutúr á jólamarkaði geti morðingi tekið svo mörg líf. „Við viljum ekki búa í ótta við djöfulinn.“
Að sögn Merkel væri árásin sérstaklega viðurstyggileg ef árásarmaðurinn hefði fengið hæli í Þýskalandi sem flóttamaður.
Það sem við vitum:
Tólf létust þegar flutningabifreið var ekið á miklum hraða inn í mannmergð á jólamarkaði í Berlín í gærkvöldi. 48 eru á sjúkrahúsi og eru einhverjir þeirra í lífshættu. Lögregla segir að maður sem fannst látinn í stýrishúsi flutningabílsins sé Pólverji sem hafi verið skotinn til bana. Hann ók ekki bifreiðinni.
Maðurinn sem er grunaður um verknaðinn kom til Þýskalands, svo kallaða Balkanleið, fyrr á árinu. Samkvæmt Die Welt er hann 23 ára Pakistani sem fékk tímabundið dvalarleyfi í júní.
Fyrr í morgun gerði sérsveit lögreglunnar húsleit í stærstu flóttamannamiðstöð Berlínar sem er til húsa á gamla Tempelhof-flugvellinum í suðurhluta borgarinnar.
Lögreglan í Berlín rannsakar hvort flutningabílnum hafi verið stolið á vinnusvæði í Póllandi en aðrar fréttir herma að bifreiðin hafi átt að fara frá Berlín til Póllands en verið var að flytja farm frá Ítalíu. Ekkert hafði heyrst frá bílstjóranum síðan fljótlega eftir hádegi í gær.
Árásin er fordæmd af bandaríska forsetaembættinu og segir nýkjörinn forseti Bandaríkjanna, Donald Trump, árásin hræðilega hryðjuverkaárás. Hann sakar Ríki íslams og aðra íslamska hryðjuverkamenn, sem stöðugt eru að slátra kristnum í samfélögum þeirra, um að bera ábyrgð á fjöldamorðinu.
Forseti Rússlands, Vladimír Pútín, segir árásina villimannslega og popúlistaflokkurinn Alternative für Deutschland, segir kristnar hefðir hafi orðið fyrir árás.
Frauke Petry, sem er helstu talsmaður AfD, segir að það hafi ekki verið nein tilviljun að árásin var gerð á kristnum markaði. Þetta sé ekki aðeins árás á frelsið og hvernig Þjóðverjar lifi lífinu heldur einnig á kristnar hefðir. Þýskaland sé klofið í afstöðu sinni til innflytjenda.
Nigel Farage, fyrrverandi leiðtogi Ukip, segir að atburðir sem þessi séu líklegir til þess að verða grafskrift Merkels.