Obama bannar olíuvinnslu í norðurhöfum

Frá Tjúktahafi þar sem Obama hefur friðað hafsvæði sem alríkisstjórnin …
Frá Tjúktahafi þar sem Obama hefur friðað hafsvæði sem alríkisstjórnin ræður yfir fyrir olíu- og gasvinnslu. ljósmynd/P199/Wikipedia

Bannað verður að vinna olíu og gas á víðfeðmu svæði í Norður-Íshafi og Atlantshafi samkvæmt ákvörðun Baracks Obama fráfarandi Bandaríkjaforseta. Tilkynnt var um verndun hafsvæðisins á sama tíma og forsætisráðherra Kanada kynnti verndun kanadískra hafsvæða í Norður-Íshafi fyrir vinnslu.

Dagblaðið Washingt Post segir að Obama hafi notað lítt þekkt lög um landgrunn til að friða stór svæði í Tjúktahafi og Beaufort-hafi í Norður-Íshafinu auk gljúfra í Atlantshafinu sem ná allt niður frá Massachusetts í norðri til Virginíu í suðri. Þegar er í gildi fimm ára bann við olíu- og gasvinnslu í Atlantshafinu.

„Þessar aðgerðir og hliðstæðar aðgerðir Kanada vernda viðkvæmt og einstakt vistkerfi sem er ólíkt öllum öðrum svæðum jarðar,“ segir í tilkynningu Hvíta hússins en þar var vísað til hættunnar á olíulekum á svæði þar sem hreinsunarstarf yrði erfitt.

Ákvörðunin hefur vakið reiði repúblikana, hagsmunaafla í jarðefnaeldsneytisiðnaðinum og stjórnmálamanna í Alaska. Öldungadeildarþingmenn ríkisins héldu sameiginlegan blaðamannafund í gær þar sem þeir sökuðu Obama um að svíkja Alaskabúa. Sögðu þeir friðun hafsvæðisins jólagjöf Obama til „strandumhverfissinnaelítunnar“ og vísuðu þar væntanlega til frjálslyndari ríkja Bandaríkjanna á austur- og vesturströndinni.

Þeir heita því að vinna með ríkisstjórn Donalds Trump að því að snúa ákvörðunni við.

Búsvæði dýrategunda í hættu

Talsmenn Hvíta hússins segja hins vegar að verðandi forseti geti ekki snúið ákvörðuninni við. Friðunin verndi svæðin fyrir olíu- og gasvinnslu ótímabundið. Washington Post segir óljóst hvort að þingmeirihluti repúblikana geti aflétt banninu. Mögulegt sé að málið velkist um fyrir dómstólum í langan tíma.

Nokkrar dýrategundir í útrýmingarhættu eða sem standa höllum fæti lifa í Tjúkta- og Beaufort-hafi, þar á meðal norðhvalur, langreyður, Kyrrahafsrostungurinn og ísbirnir. Sérfræðingar hafa sérstakar áhyggjur af þessum dýrategundum vegna þess að hnattræn hlýnun á sér stað tvöfalt hraðar á norðurskautinu en annars staðar á jörðinni. Það veldur mikilli röskun á búsvæðum og lifnaðarháttum dýranna.

Umfjöllun Washington Post

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert