Bannað verður að vinna olíu og gas á víðfeðmu svæði í Norður-Íshafi og Atlantshafi samkvæmt ákvörðun Baracks Obama fráfarandi Bandaríkjaforseta. Tilkynnt var um verndun hafsvæðisins á sama tíma og forsætisráðherra Kanada kynnti verndun kanadískra hafsvæða í Norður-Íshafi fyrir vinnslu.
Dagblaðið Washingt Post segir að Obama hafi notað lítt þekkt lög um landgrunn til að friða stór svæði í Tjúktahafi og Beaufort-hafi í Norður-Íshafinu auk gljúfra í Atlantshafinu sem ná allt niður frá Massachusetts í norðri til Virginíu í suðri. Þegar er í gildi fimm ára bann við olíu- og gasvinnslu í Atlantshafinu.
„Þessar aðgerðir og hliðstæðar aðgerðir Kanada vernda viðkvæmt og einstakt vistkerfi sem er ólíkt öllum öðrum svæðum jarðar,“ segir í tilkynningu Hvíta hússins en þar var vísað til hættunnar á olíulekum á svæði þar sem hreinsunarstarf yrði erfitt.
Ákvörðunin hefur vakið reiði repúblikana, hagsmunaafla í jarðefnaeldsneytisiðnaðinum og stjórnmálamanna í Alaska. Öldungadeildarþingmenn ríkisins héldu sameiginlegan blaðamannafund í gær þar sem þeir sökuðu Obama um að svíkja Alaskabúa. Sögðu þeir friðun hafsvæðisins jólagjöf Obama til „strandumhverfissinnaelítunnar“ og vísuðu þar væntanlega til frjálslyndari ríkja Bandaríkjanna á austur- og vesturströndinni.
Þeir heita því að vinna með ríkisstjórn Donalds Trump að því að snúa ákvörðunni við.
Talsmenn Hvíta hússins segja hins vegar að verðandi forseti geti ekki snúið ákvörðuninni við. Friðunin verndi svæðin fyrir olíu- og gasvinnslu ótímabundið. Washington Post segir óljóst hvort að þingmeirihluti repúblikana geti aflétt banninu. Mögulegt sé að málið velkist um fyrir dómstólum í langan tíma.
Nokkrar dýrategundir í útrýmingarhættu eða sem standa höllum fæti lifa í Tjúkta- og Beaufort-hafi, þar á meðal norðhvalur, langreyður, Kyrrahafsrostungurinn og ísbirnir. Sérfræðingar hafa sérstakar áhyggjur af þessum dýrategundum vegna þess að hnattræn hlýnun á sér stað tvöfalt hraðar á norðurskautinu en annars staðar á jörðinni. Það veldur mikilli röskun á búsvæðum og lifnaðarháttum dýranna.