Verðandi forseti Bandaríkjanna, Donald Trump, vill að Bandaríkin auki kjarnorkuvopnastyrk sinn mikið á næstunni. Segir hann í færslu á Twitter að Bandaríkin þurfi að bæta við kjarnavopn sín þangað til heimurinn öðlist almenna skynsemi varðandi slík vopn.
Trump útskýrði ekki nánar orð sín, en þau eru í andstöðu við hugmyndir forvera hans, Barack Obama, sem sagði í ræðu í Prag árið 2009 að vinna þyrfti að því að eyða öllum kjarnorkuvopnum.
Trump fundaði í gær með hópi sérfræðinga í varnarmálaráðuneytinu, meðal annars yfirmanni eldflaugavarnarstofnunar Bandaríkjanna. Var umræðuefni fundarins hvernig draga mætti úr útgjöldum á ýmsum sviðum hernaðarmála.
Bandaríkin eiga í dag um 7.000 kjarnorkuvopn, en aðeins Rússland á fleiri slík vopn og munar þar nokkrum hundruðum.
The United States must greatly strengthen and expand its nuclear capability until such time as the world comes to its senses regarding nukes
— Donald J. Trump (@realDonaldTrump) December 22, 2016