Vladimir Pútín, forseti Rússlands, segir að Donald Trump, nýkjörinn Bandaríkjaforseti, hafi lesið hárrétt í þjóðarsál Bandaríkjamanna og þannig hafi honum tekist að vinna kosningarnar, þrátt fyrir að engir aðrir en Rússar hafi trúað á sigur hans.
„Honum tókst að lesa hárrétt í þá stemningu sem var í þjóðfélaginu og fór alla leið, þrátt fyrir að enginn hafi trúað að hann gæti unnið nema við,“ sagði Pútín á blaðamannafundi.
Pútín sagði einnig á fundinum að „ekkert óvenjulegt“ væri við ákall Trumps um að efla kjarnorkuvopnabúr Bandaríkjamanna.
„Það er ekkert nýtt á ferðinni. Í kosningabaráttu sinni talaði hann um nauðsyn þess að styrkja kjarnorkuvopnabúr Bandaríkjanna og hersveitir landsins. Það er ekkert óvenjulegt á ferðinni hérna,“ sagði hann.
Trump skrifaði á Twitter í gær að Bandaríkin verði að efla kjarnorkuvopnabúr sitt. Degi áður hafði hann átt fund með yfirmönnum hjá bandaríska varnarmálaráðuneytinu, Pentagon. Einnig hafði Pútín skömmu áður talað um að Rússar þyrftu að efla kjarnorkuvopnabúr sinn.
Frétt mbl.is: Vill auka kjarnorkuvopnastyrk Bandaríkjanna
The United States must greatly strengthen and expand its nuclear capability until such time as the world comes to its senses regarding nukes
— Donald J. Trump (@realDonaldTrump) December 22, 2016