Fögnuður brýst út í Aleppo

Þúsundir fólks í Vestur-Aleppo þustu út á götur borgarinnar í gærkvöldi, og fögnuðu fullnaðarsigri sýrlenska stjórnarhersins á uppreisnarmönnum í Austur-Aleppo, eftir áralöng hatrömm átök.

Mannfjöldinn flykktist út á göturnar um leið og herinn tilkynnti að síðustu uppreisnarmennirnir hefðu yfirgefið borgina, og var meðal annars skotið af byssum til að fagna tilefninu.

Vesturhluti borgarinnar hefur verið undir stjórn stjórnarhersins í gegnum allt stríðið, en hefur þó þurft að þola miklar sprengjuárásir og dauðsföll borgara.

„Við höfum beðið eftir þessu í fimm ár. Við höfum þjáðst, vegna uppreisnarmannanna, rafmagnsleysisins og vatnsskorts,“ sagði Rana al-Salem, 29 ára, í samtali við fréttastofu AFP.

Þá mátti sjá börn með sýrlenska fánann málaðan á kinnar þeirra, á meðan fullorðnir flögguðu honum jafnvel ásamt fána Rússa, en loftárásir þeirra reyndust vendipunktur í átökunum.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert