Forsætisráðherra Ísraels, Benjamin Netanyahu, segir að fordæming Sameinuðu þjóðanna á landnemabyggðum þeirra sé til skammar. Hann leggur áherslu á að Ísraelar muni ekki hlíta ályktun sem samþykkt var í öryggisráði Sameinuðu þjóðanna í gær. Í ályktuninni kemur m.a. fram að vöxtur landnemabyggða Ísraela á hernumdum svæðum þeirra ógni möguleikum á friði á svæðinu.
Talsmaður Mahmoud Abbas, forseta Palestínu, segir að ályktunin væri skellur fyrir stefnu Ísraela.
Bandaríkjamenn beittu ekki neitunarvaldi sínu í öryggisráðinu í gær er atkvæðagreiðsla fór fram um ályktunina. Donald Trump, sem tekur við forsetaembættinu þar í landi í janúar, segir að margt muni breytast gagnvart Sameinuðu þjóðunum er hann taki við völdum.
Það voru Egyptar sem lögðu tillögu að ályktuninni fram. Hún hafði einu sinni verið dregin til baka eftir að Ísraelar báðu Trump að koma að málinu. En í gær var hún lögð fram á ný með fulltingi fulltrúa Malasíu, Nýja-Sjálands, Senegal og Venesúela.
Fjórtán fulltrúar öryggisráðsins samþykktu tillöguna.
Ísraelar og Palestínumenn hafa lengi deilt um landnemabyggðir Ísraela. Palestínumenn telja byggðirnar hindra að friður komist á á svæðinu.
Um hálf milljón gyðinga býr í um 140 landnemabyggðum sem hafa verið reistar frá því að Ísraelsríki var stofnað árið 1967. Þær eru á Vesturbakkanum svokallaða og í austurhluta Jerúsalem. Samkvæmt alþjóðalögum eru byggðirnar ólöglegar en það hafa Ísraelar véfengt.
Netanyahu er mjög harðorður vegna ályktunarinnar. Hann segir að um skammarlegan gjörning sé að ræða.
„Á sama tíma og öryggisráðið gerir ekkert til að stöðva slátrun hálfrar milljónar manna í Sýrlandi, ræðst það gegn eina sanna lýðræðisríkinu í Miðausturlöndum, Ísrael, og kallar byggðirnar hernumin svæði.“