Hefði getað sigrað Trump

Barack Obama, fráfarandi forseti Bandaríkjanna.
Barack Obama, fráfarandi forseti Bandaríkjanna. AFP

Flestir Bandaríkjamenn eru enn hlynntir þeim umbótum sem komið var á og stefnt að í forsetatíð Baracks Obama, fráfarandi Bandaríkjaforseta, þrátt fyrir að Donald Trump, pólitískan andstæðing Obama, hafi verið kosinn forseti í nóvember. Þetta er haft eftir Obama í viðtali við hann á hlaðvarpinu „The Axe Files“ sem framleitt er af bandarísku sjónvarpsstöðinni CNN í samstarfi við Chicago-háskóla í Bandaríkjunum. Fréttaveitan AFP greinir frá.

Forsetinn fráfarandi sagði ennfremur að hann hefði náð endurkjöri og setið þriðja kjörtímabilið ef hann hefði áfram gefið kost á sér og lagt áherslu á þessi stefnumál sín. Sami einstaklingur getur aðeins gegnt embætti forseta Bandaríkjanna í tvö kjörtímabil í röð samkvæmt bandarísku stjórnarskránni. Fyrir árið 1947 voru engin slík takmörk en þeim var komið í kjölfar þess að Franklin D. Roosevelt hafði verið kjörinn forseti fjórum sinnum.

„Ég hef sannfæringu fyrir þessari hugsjón vegna þess að ég er sannfærður um að ef ég hefði gefin aftur kost á mér og talað fyrir henni þá tel ég að hefði getað fengið meirihluta Bandaríkjamanna til þess að fylkja sér á bak við hana,“ sagði Obama við David Axelrod sem tók viðtalið en hann var áður einn helsti ráðgjafi forsetans. Hillary Clinton var frambjóðandi Demókrata að þessu sinni, líkt og Obama áður, en tapaði fyrir Trump.

„Það er aldrei skemmtilegt að tapa,“ sagði Obama spurður um forsetakosningarnar og niðurstöður þeirra en fáir áttu von á að Trump hefði betur. Flestar skoðanakannanir bentu til þess gagnstæða og stjórnmálaskýrendur voru flestir á því að Clinton yrði næsti forseti Bandaríkjanna. Þrátt fyrir kjör Trumps sagði Obama að hann teldi að í forsetatíð hans hefðu varanleg áhrif orðið á bandarískri menningu og samfélagsgerð.

Vísaði Obama þar meðal annars í vaxandi umburðarlyndi sem mætti einkum sjá hjá yngri kynslóðinni. Flestir Bandaríkjamenn væru einnig hlynntir því að bandarískt samfélag væri umburðarlynt, opið og fjölbreytt. Hann sagðist stoltur af verkum sínum á kjörtímabilinu. „Ég er stoltur af því að hafa lagt áherslu á það í embætti að gera það sem ég hef talið vera rétt fremur en það sem hefur verið vinsælt,“ sagði Obama ennfremur.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert