Benjamin Netanyahu, forsætisráðherra Ísraels, hefur gert utanríkisráðuneyti landsins að takmarka allt samstarf við sendiráð þeirra 12 ríkja Öryggisráð Sameinuðu þjóðanna, sem Ísraelar eiga í utanríkissamstarfi við og sem samþykktu á föstudag ályktun um að Ísraelar hætti þegar í stað að koma upp landtökubyggðum á palestínsku landi.
CNN fréttastofan hefur eftir embættismönnum Ísraelsríkis að það feli í sér að viðskiptum við sendiráð Bretlands, Frakklands, Rússlands, Kína, Japan, Úkraínu, Angóla, Egyptalands, Úrúgvæ, Spán, Senegal og Nýja Sjáland verði hætt.
Netanyahu mun ekki funda með utanríkisráðherrum þessara ríkja og ísraelska utanríkisráðuneytið mun ekki veita sendiherrum þeirra móttöku.
Aukinheldur verða ferðalög ísraelskra ráðherra til þessara ríkja takmörkuð, þó sendiherrar Ísraels í áðurgreindum ríkjum muni áfram geta sinnt sínu starf og umgengist ríkisstjórnir þeirra.
Netanyahu hafði áður látið boða tíu sendiherra ríkjanna í ísraelska utanríkisráðuneytið þar sem þeir fengu tiltal vegna atkvæðagreiðslunnar.
Bandaríkin sem yfirleitt beita neitunarvaldi þegar Öryggisráðið reynir að álykta gegn Ísraelsríki, sátu hjá að þessu sinni.
Ron Dermer, sendiherra Ísraels í Bandaríkjunum, sagði í viðtali við CNN að Ísrael geti ekki tekið ályktuninni þegjandi. „Við getum ekki haldið áfram að taka á móti erlendum ráðamönnum eins og ekkert hafi gerst. Þetta er alvarleg atlaga gegn Ísrael.“
Dermer sagði enn fremur að ísraelsk stjórnvöld hefðu sannanir fyrir því að Bandaríkin hafi staðið að baki ályktuninni og að þær sannanir verði kynntar nýrri stjórn þegar hún tekur til valda í næsta mánuði.
Þá samþykktu ísraelsk stjórnvöld í gær að reisa þúsundir nýrra heimila á landtökubyggðum í Jerúsalem, þvert á ályktun Öryggisráðsins.
600 hús verða reist í byggðinni á næstunni og segir New York Times nú stefnt að því að 5.600 heimili á svæðinu.