Bilanir í vængjabúnaði eru sögð orsök þess að rússnesk herflugvél með 92 innanborðs hrapaði í Svartahafið á aðfararnótt jóladags. Flugriti vélarinnar Tu-154 var fluttur til Moskvu í gær til rannsóknar en brak vélarinnar fannst í fyrradag á 27 metra dýpi í Svartahafinu.
Í frétt BBC er haft eftir heimildarmanni Interfax fréttaskrifstofunnar að vængbörð í vélinni hafi ekki hreyfst á réttan hátt. Vængbörð eða flapar hjálpa til við að halda flugvélum á lofti.
Þá er sagt að nokkur af síðustu orðum flugmannanna verið „Vængbörðin, helvítis...“ en fréttastofa BBC segir að á rússneska netfréttamiðlinum Life megi finna afrit af upptökum úr flugstjórnarklefanum:
Skerandi hljóð heyrist
Viðvörunarhljóð heyrast um hættulega nálægð við jörðu
Vélin var á leið til herstöðvar Rússa í Sýrlandi þar sem Alexandrov-kór rússneska hersins átti að koma fram á nýárstónleikum. 64 meðlimir kórsins voru um borð í vélinni.