Bandarísk stjórnvöld hafa rekið 35 Rússa úr landi. Þeir eru leyniþjónustumenn og þar af eru fjórir hátt settir í leyniþjónustunni GRU. Þeim hefur verið hótað frekari refsiaðgerðum. Bandaríkjamenn saka þá um að standa á bak við netárásir í forsetakosningunum í nóvember.
„Ég hef fyrirskipað nokkrar refsiaðgerðir vegna mikils áreitis rússneskra stjórnvalda í garð bandarískra embættismanna og netaðgerða sem beindust að bandarísku kosningunum,“ sagði Barack Obama, Bandaríkjaforseti.
Rússunum ásamt fjölskyldum þeirra var gert að yfirgefa landið á innan við 72 klukkustundum. Þeir eru starfsmenn í rússneskum sendiráðum í borgunum Washington og San Francisco, samkvæmt The Wall Steet Journal.
Búist er við að stjórn Obama muni leggja fram frekari sannanir fyrir að Rússar hafi staðið að baki innbroti í tölvupóstaþjóna landsnefndar Demókrataflokksins. Í kjölfar þess var tölvupóstum John Podesta, kosningastjóra Hillary Clinton lekið. Umfjöllun fjölmiðla um forsetaframboð hennar einkenndist mjög af því sem kom fram í póstunum.
Frá því í kosningabaráttunni hafa Rússar verið sakaðir um netárásir í forsetakosningunum. Nokkrar leyniþjónustustofnanir Bandaríkjanna, þar á meðal CIA, hafa lýst því yfir að rússnesk stjórnvöld hafi reynt að tryggja Trump sigur í kosningunum, meðal annars með því að brjótast inn í tölvupósta landsnefndar Demókrataflokksins og leka tölvupóstum Podesta.
Bæði rússnesk stjórnvöld og Trump hafa þvertekið fyrir þessar ásakanir.