Tugir erlendra verkamanna hafa verið dæmdir í fangelsi og til að vera hýddir fyrir að hafa mótmælt því að fá ekki greidd laun mánuðum saman hjá verktakafyrirtækjum í Sádi-Arabíu.
Ekki hefur verið gefið upp þjóðerni verkamannanna 49 sem hlutu dóma fyrir mótmælin en fjallað er um þetta í Al-Watan-dagblaðinu og Arab News. Mennirnir störfuðu hjá Binladin Group í Sádi-Arabíu.
Al-Watan segir að hluti hópsins hafi verið dæmdur til að afplána 45 daga auk þess að þola 300 svipuhögg fyrir að valda skemmdum á opinberum eignum og hvetja til óeirða. Aðrir voru dæmdir í 45 daga fangelsi en sleppa við svipuhöggin.
Verkamenn hjá byggingarfyrirtækjum eins og Binladin Group og Saudi Oger fengu ekki greidd laun eftir hrun í olíuiðnaðinum í upphafi síðasta árs. Hrunið varð þess valdandi að konungsdæmið gat ekki greitt einkafyrirtækjum fyrir umsamin verk.
Í maí greindi Arab News frá því að verkamenn, sem ekki hefðu fengið greidd laun, hefðu kveikt í nokkrum rútum í eigu Binladin í Mekka. Stjórnvöld staðfestu að kviknað hafi í nokkrum rútum en tilgreindu ekki hvernig.
Binladin á heiðurinn af ýmsum byggingum í Sádi-Arabíu en fyrirtækið á sér meira en áttatíu ára sögu. Stofnandi þess er faðir Osama bin Laden heitins, leiðtoga Al-Qaeda.
Fyrirtækið tilkynnti fyrir árslok að það hefði lokið við að greiða laun þeirra 70 þúsund starfsmanna sem það hefði þurft að segja upp. Þeir sem enn væru starfandi hjá fyrirtækinu fengju laun sín greidd um leið og stjórnvöld greiði það sem er í vanskilum.
Svipaða sögu er að segja af starfsmönnum Saudi Oger, en forsætisráðherra Líbanon, Saad Hairi, er stjórnarformaður þess. Tugir þúsunda starfsmanna Saudi Oger fengu ekki greidd laun á réttum tíma í fyrra en í desember var greint frá því að þeir hefðu fengið hluta launa sinna greidd en ættu enn inni fimm mánaða laun.
Stjórnvöld í Sádi-Arabíu hétu því í nóvember að í desember myndu þau greiða það sem væri í vanskilum. En 22. desember var ekki byrjað að greiða það sem var í vanskilum. Í fjárlagafrumvarpi fjármálaráðherra, Mohammed Aljadaan, fyrir árið 2017 kom fram að þetta yrði greitt innan 60 daga.