Fyrsta endurprentun bókar Adolfs Hitler, Mein Kampf (Barátta mín) síðan eftir seinni heimsstyrjöldina en bókin kom út á árunum 1925-26 hefur selst miklu betur en talið var. Von er á sjöttu prentun í verslanir fljótlega, að sögn útgefanda.
Í bókinni tíundar Hitler allt það sem hann hyggst gera til að „endurreisa“ Þýskaland og baráttu sína við kommúnista og gyðinga, en hann hafði þá þegar sjúklega áráttu gagnvart gyðingum.
Eftir seinni heimsstyrjöldina var útgáfa bókarinnar bönnuð í Þýskalandi en hún var gefin út að nýju fyrir ári síðan í fræðilegri útgáfu. Útgefandinn, Institut für Zeitgeschichte (IfZ), segir að um 85 þúsund eintök hafi selst en áætlað var að um fjögur þúsund eintök myndu seljast.
Verkið, sem er í tveimur bindum hefur verið á lista Der Spiegel yfir mest seldu fræðiritin nánast allt frá útgáfunni í fyrra. IfZ hefur einnig staðið fyrir umræðufundum og kynningum á bókinni í Þýskalandi og víðar í Evrópu. Framkvæmdastjóri IfZ, Andreas Wirsching, segir að ótti manna um að bókin myndi styðja við hugmyndafræði Hitlers og jafnvel þýða að hún yrði viðurkennd og ný-nasistum yxi fiskur um hrygg hafi ekki verið á rökum reistur.
Flestir þeirra sem hafi keypt bókina eru áhugamenn um stjórnmál og sögu auk kennara en minni áhugi er meðal öfgamanna.
Þrátt fyrir það ætlar IfZ að halda fast við harða stefnu í veitingu útgáfuréttar í öðrum löndum. Aðeins er fyrirhugað að gefa hana út á ensku og frönsku en fyrirspurnir hafa komið víða að.