Donald Trump, sem tekur við embætti forseta Bandaríkjanna nú síðar í mánuðinum, hafnar alfarið fullyrðingum ráðamanna í Norður-Kóreu að þeir séu langt komnir með að þróa langdrægar skotflaugar sem geti gert árásir á Bandaríkin. Kim Jong-un, leiðtogi Norður-Kóreu greindi nýlega frá því að undirbúningur væri á lokastigi.
Líkt og oft áður tjáði Trump sig um málið í Twitter-skilaðboðum og sagði hann einfaldlega: „Það mun ekki gerast.“
Fréttavefur BBC segir ekki ljóst hvort Trump sé þarna að lýsa yfir efasemdum um kjarnorkuhæfni Norður-Kóreu, eða hvort hann hafi verið að gefa í skyn að bandarísk stjórnvöld myndu grípa til einhverra aðgerða.
Trump ávítaði einnig kínversk stjórnvöld fyrir að gera ekki meira til að draga úr vígbúnaði bandamanna sinna í Norður-Kóreu. „Kína hefur með einhliða milliríkjaviðskiptum haft mikið fé og auð af Bandaríkjunum, en vill svo ekki hjálpa með Norður-Kóreu. Huggulegt!,“ sagði í skilaboðum Trump.
Kim greindi frá því í áramótaávarpi sínu að prófanir Norður-Kóreu á langdrægum skotflaugum sem geti borið kjarnaodda væru nú á lokastigi. Sagði hann Norður-Kóreu nú vera hernaðarveldi í Austurlöndum, „sem jafnvel sterkustu óvinir fái ekki grandað“.
Stjórnvöld í Norður-Kóreu stóðu fyrir tveimur kjarnorkutilraunum á síðasta ári, sem hefur vakið ugg um að þau nálgist nú að verða kjarnorkuveldi. Þeim hefur þó ekki enn tekist að senda á loft langdræga flaug sem borið getur kjarnaodda, en sérfræðingar telja líklegt að ríkið nái því takmarki innan fimm ára.