Er Manson við dauðans dyr?

Charles Manson.
Charles Manson. AFP

Bandaríski fjöldamorðinginn Charles Manson er alvarlega veikur á sjúkrahúsi en ekki hefur verið upplýst um hvað hrjáir hann. Manson er 82 ára gamall og var dæmdur til dauða fyrir morðið á leikkonunni Sharon Tate, eiginkonu kvikmyndaleikstjórans Roman Polañski, auk fleiri morða árið 1969. Dómnum var síðar breytt í lífstíðarfangelsi.

Manson var fluttur úr Corcoran-ríkisfangelsinu í Kings-sýslu í Kaliforníu á sjúkrahús í Bakersfield, samkvæmt TMZ fréttasíðunni.

Hjónin Roman Polanski og Sharon Tate.
Hjónin Roman Polanski og Sharon Tate. YouTube

Fangelsismálayfirvöld neita að tjá sig um fréttina en segja aðeins að Manson sé á lífi. Los Angeles Times hefur eftir ónafngreindum heimildum að Manson sé alvarlega veikur.

Manson leit á það sem sitt hlutverk að stuðla að stríði milli kynþátta og að Bítlarnir, sem hann hafði dálæti á, hefðu varað við yfirvofandi helför í tónlist sinni. Gaf hann helför þessari nafnið Helter Skelter, eftir lagi Bítlanna. Greip Manson til þess ráðs að láta fylgjendur sína slátra auðugu fólki á heimilum þess og láta grun falla á herskáa hópa blökkumanna, svo sem Svörtu pardusana, til að kynda undir stríði milli kynþátta. Spá hans var sú að svartir myndu fara með sigur af hólmi í þeirri styrjöld en þar sem þeir hefðu ekki burði til að stjórna sjálfir myndu þeir gera hann að leiðtoga þjóðarinnar. Á endanum stæðu engir uppi nema „hinir útvöldu“, þ.e. Manson-fjölskyldan.

Charles Manson þegar hann var handtekinn árið 1969.
Charles Manson þegar hann var handtekinn árið 1969.

Manson var dæmdur ásamt fjórum öðrum úr Manson-fjölskyldunni fyrir morðið á Tate, sem var komin á níunda mánuð meðgöngu þegar henni var slátrað ásamt sex öðrum. Manson var ekki viðstaddur morðin sjálfur en fyrirskipaði þau og stýrði undirsátum sínum við verknaðinn.

Hann sótti síðast um reynslulausn árið 2012 en var synjað og má ekki sækja um reynslulausn næst fyrr en árið 2027. Þá verður hann 92 ára að aldri. Árið 2014 fékk hann heimild til þess að kvænast Afton Elaine Burton, sem þá var 26 ára gömul, en hún hafði heimsótt hann um hríð í fangelsið. En ekkert varð af brúðkaupinu. Manson var tvíkvæntur áður en hann var dæmdur, fyrst Rosalie Jean Willis 1955 til 1958 og síðar Candy Stevens frá 1959 til 1963.

Sharon Tate.
Sharon Tate. Vefur Tate

Orri Páll Ormarsson skrifaði grein í Sunnudagsmogann um morðið á Tate þegar 40 ár voru liðin frá morðunum. 

„Fjörutíu ár eru í dag liðin frá því fjögur ungmenni brutust inn á heimili leikkonunnar Sharon Tate í Los Angeles í skjóli nætur og leiddu hana kasólétta og fernt annað hreinlega til slátrunar. Grimmdin vakti viðbjóð um allan heim en voðaverkið var liður í úthugsaðri áætlun andlegs föður ungmennanna, Charles Mansons,“ segir í grein Orra Páls frá 9. ágúst 2009.

Sharon Tate.
Sharon Tate. Vefur Tate

Greinin heldur áfram:

Það var miðnætti. Nýr dagur rann upp, 9. ágúst 1969. Þau lögðu bílnum svo lítið bar á skammt frá húsinu á 10050 Cielo Drive í borg englanna og gengu síðasta spölinn. Hann klifraði upp í símastaur og skar á línuna. Best að hafa vaðið fyrir neðan sig. Af ótta við að rafmagn væri í hliðinu klifruðu þau yfir hrjúfan vegginn og létu sig falla hljóðlega til jarðar. Þá gerðist nokkuð sem þau höfðu ekki reiknað með, bíll kom keyrandi á móti þeim. Framljósin voru skær í náttmyrkrinu. Hann skipaði konunum þremur að fela sig í næsta runna. Síðan gaf hann bílstjóranum fyrirmæli um að nema staðar. Enginn tími var fyrir kurteisishjal, þannig að hann dró byssu úr pússi sínu og skaut bílstjórann, hinn átján ára gamla Steven Parent, í höfuðið.

Eftir að hafa tekið rúðuna úr opnum glugga á húsinu fékk maðurinn, Charles „Tex“ Watson, 23 ára, eina kvennanna, Lindu Kasabian, 20 ára, til að standa vörð fyrir utan. Sjálfur skreið hann inn um gluggann og hleypti hinum konunum tveimur, Susan Atkins og Patriciu Krenwinkel, báðum 21 árs, inn um aðaldyrnar.

 Ég er djöfullinn sjálfur!

Við hvíslið í þeim vaknaði vinur húsráðenda, Wojciech Frykowski, sem svaf á sófanum í stofunni. Spurði sísona hvaða ferðalag væri á þeim. „Ég er djöfullinn sjálfur og er hingað kominn til að vera með djöfulgang,“ svaraði Watson að bragði og sparkaði þéttingsfast í höfuðið á Frykowski. Því næst gaf hann konunum tveimur fyrirmæli um að hafa uppi á öðru fólki í húsinu. Það reyndist vera þrennt. Kvikmyndaleikkonan Sharon Tate, sem réð húsum, komin hálfan níunda mánuð á leið, hárgreiðslumaður hennar og fyrrverandi ástmaður, Jay Sebring, og ástkona Frykowskis, Abigail Folger. Eiginmaður Tate, kvikmyndaleikstjórinn Roman Polañski, var staddur í Lundúnum.

Watson tók til við að binda Tate og Sebring saman í stofunni. Sá síðarnefndi mótmælti meðferðinni á barnshafandi vinkonu sinni hástöfum. Watson nennti ekki að hlusta á það, þannig að hann skaut Sebring og stakk hann síðan til öryggis sjö sinnum með hnífi.

Í því sleit Frykowski, sem bundinn hafði verið með handklæði á höndum, sig lausan. Enda þótt Atkins næði að stinga hann í fótinn tókst honum að brjótast út á verönd hússins. Þar tók Watson hins vegar í hnakkadrambið á honum og barði hann nokkrum sinnum í höfuðið með byssuskeftinu svo það brotnaði. Að því búnu stakk hann Frykowski ítrekað og skaut hann í tvígang.

 Bað þau að þyrma barninu

Að því búnu sá Watson út undan sér að Folger hafði gengið Krenwinkel úr greipum og var komin út á grasflötina við húsið. Þau eltu hana uppi í sameiningu og stungu alls 28 sinnum áður en Watson gekk endanlega frá henni.

Þótt ótrúlegt megi virðast var Frykowski ennþá á lífi þegar hér er komið sögu. Watson kom auga á hann skríðandi í grasinu og veitti honum náðarstunguna, hún var sú 51. í röðinni.

Þá var bara eitt eftir – að ganga frá Sharon Tate. Hún var enn þá bundin á stofugólfinu, vitstola af hræðslu. Tate þrábað þríeykið um að þyrma sér, alltént þangað til barnið væri fætt. Við því var ekki orðið. „Þegiðu truntan þín. Ég hef enga samúð með þér. Þú munt deyja og skalt sætta þig við það,“ grenjaði Atkins.

Ekki varð aftur snúið. „Mamma, mamma,“ hrópaði Tate. Síðan var hún öll. Stungusárin á líkinu voru sextán. Dánardómstjóri dró þá ályktun að fimm þeirra hefðu nægt til að bana henni, hvert fyrir sig.

Áður en ódæðisfólkið yfirgaf vettvanginn tók Atkins handklæðið, sem notað hafði verið til að binda Frykowski, dýfði því í blóð Tate og skrifaði orðið „svín“ á útidyrnar.

 Lögreglan sein á sporið

Það var ófögur sjón sem blasti við Winifred Chapman, ráðskonu Tate og Polañskis, þegar hún mætti til vinnu morguninn eftir. Fyrst beindist grunur að William nokkrum Garretson, sem bjó í litlu bakhúsi á lóðinni. Fljótlega kom þó í ljós að hann tengdist morðunum ekki á neinn hátt, nema hvað ungi maðurinn, Steven Parent, hafði verið að koma frá honum þetta örlagaríka kvöld. Vond tímasetning.

Sharon Tate var borin til grafar 13. ágúst 1969 með ófæddan son sinn, Paul Richard Polañski, í fanginu. Hollywood – og heimurinn allur – var felmtri slegin. Hver gat framið svo hræðilegan verknað?

Illa gekk að upplýsa málið og spennan stigmagnaðist. „Ég hef ekki í annan tíma kynnst svona mikilli skelfingu,“ rifjaði rithöfundurinn Dominick Dunne upp síðar. „Fólk var sannfært um að ríkir og frægir væru upp til hópa í bráðri hættu. Börn voru send úr bænum, verðir ráðnir til starfa. Steve McQueen var með byssu á sér í útför Jays Sebrings.“

Hvorki gekk né rak við rannsóknina fyrr en í nóvember 1969. Susan Atkins hafði þá verið tekin höndum í tengslum við bílþjófnað og fór að grobba sig af því við klefafélaga sinn að hafa myrt Sharon Tate. Þau digurmæli urðu dýrkeypt.

 Fengu fyrirmæli frá Manson

Upprunalega gerði ákæruvaldið í Los Angeles samkomulag við Atkins um friðhelgi gegn því að hún upplýsti málið og vísaði á samverkamenn sína. Það gerði hún. Spurð um ástæðu voðaverkanna gaf hún þá skýringu að andlegur leiðtogi þeirra, Charles Manson, hefði fyrirskipað þeim að myrða fólkið. Watson átti að stjórna aðgerðum á vettvangi en konurnar að gegna honum í einu og öllu. Þau heyrðu til Manson-fjölskyldunni, hópi ungmenna sem hinn 35 ára gamli Manson hafði safnað í kringum sig og voru öll háð örvandi efnum á þessum tíma, þrátt fyrir andúð Mansons á þeim.

Atkins viðurkenndi einnig að morðin á hjónunum Leno og Rosemary LaBianca, kvöldið eftir Tate-morðin, hefðu verið framin af sama hópi, auk fjórðu konunnar, Leslie Van Houten.

Manson, Atkins, Krenwinkel og Van Houten voru öll sakfelld og dæmd til dauða 29. mars 1971. Watson, sem tekinn var höndum í Texas, var síðar framseldur og dómur í máli hans féll 21. október sama ár. Geðlæknar fullyrtu að hann hefði gert sér upp geðveiki og hlaut hann einnig dauðadóm. Refsingum allra fimm var breytt í lífstíðarfangelsi eftir að dauðarefsingin var lögð niður í ríkinu árið 1972. Öll sitja þau enn í fangelsi og hafa ítrekað fengið synjun um reynslulausn. 

Frægð morðingjanna, einkum Mansons, hefur verið með miklum ólíkindum og er stöðugt viðhaldið, ekki síst af tónlistarmönnum. Allir þekkja Marilyn Manson og hin vinsæla breska rokkhljómsveit Kasabian heitir í höfuðið á lykilvitninu. Þá bjó Trent Reznor úr Nine Inch Nails um tíma í húsinu þar sem morðin voru framin. Það hefur nú verið rifið,“ segir í grein Orra Páls en hana er hægt að lesa í heild hér.

Grein mbl.is: Blóðþyrsti morðinginn er ástfanginn

Hvar eru þau nú:

Susan Atkins.
Susan Atkins. Wikipedia

Susan Atkins lést í september 2009 en Atkins var 61 árs þegar hún lést og hafði verið með krabba­mein í heila. Aðeins tæp­um mánuði fyrr hafði dauðvona kon­unni verið neitað um reynslu­lausn. Þegar hún kom til yf­ir­heyrsl­unn­ar og sótti um reynslu­lausn­ina var hún á sjúkra­bör­um og svaf mest­all­an tím­ann.

Patricia Krenwinkel.
Patricia Krenwinkel. Wikipedia

Patricia Krenwinkel er 69 ára gömul og er enn á bak við lás og slá. Hún óskaði eftir reynslulausn undir lok síðasta árs en náðunarnefndin tók sér frest til þess að birta úrskurð sinn. Henni hefur verið synjað 13 sinnum um reynslulausn og hefur engin kona setið jafn lengi í fangelsi í Kaliforníu og hún. 

Krenwinkel varð fyrir miklu einelti í æsku og átti mjög erfið bernskuár. Hún ætlaði sér að verða nunna en ekkert varð af því en árið 1967 hitti hún Manson í fyrsta skipti. Hún svaf hjá honum strax fyrstu nóttina og síðar sagði hún að hann hafi verið fyrsti maðurinn til þess að segja að hún væri falleg. Ekki var aftur snúið og Krenwinkel varð einn af „stúlkunum hans Charlies“. Við tók átján mánaða ferðalag um Bandaríkin þar sem lífið snerist um kynlíf og dóp.

Leslie Louise Van Houten.
Leslie Louise Van Houten. Wikipedia

Leslie Louise Van Houten var 19 ára þegar hún var dæmd fyrir morðin og árið 2013 var henni synjað um reynslulausn í 20 skiptið.  Í apríl í fyrra mælti náðunarnefndin með því að Van Houten fengi reynslulausn en ríkisstjóri Kaliforníu, Jerry Brown, beitti neitunarvaldi á grundvelli þess að henni hafi ekki tekist að gefa sannfærandi rök fyrir því að hún eigi að ganga laus. Brown sagðist telja að það væri óásættanleg áhætta fyrir samfélagið ef Van Houten gengi laus. Síðan þá hefur hæstiréttur Kaliforníu staðfest ákvörðun ríkisstjórans.

Charles „Tex“ Watson.
Charles „Tex“ Watson. Wikipedia

Charles „Tex“ Watson er 71 árs og hefur fimmtán sinnum verið synjað um reynslulausn, síðast í október í fyrra. Hann getur næst sótt um eftir fimm ár en þangað til er hann bak við lás og slá í Mule Creek-ríkisfangelsinu í Ione í Kaliforníu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert