Fundinn sekur um manndráp

Elor Azaria.
Elor Azaria. AFP

Ísraelskur hermaður hefur verið dæmdur sekur um manndráp en á myndbandsupptöku sést hann skjóta Palestínumann sem liggur særður á jörðinni til bana. 

Hermaðurinn, Elor Azaria, 20 ára, skaut Abdul Fatah al-Sharif, 21 árs í höfuðið eftir að hafa verið afvopnaður en áður hafði Sharif stungið annan ísraelskan hermann í Hebron á Vesturbakkanum.

Azaria hélt því fram að hann hafi talið að Sharif væri í sprengjuvesti en saksóknari sagði að ástæðan hafi verið hefnd.

Dómsmálið hefur vakið gríðarlega eftirtekt í Ísrael og í raun skipt fólki í tvær fylkingar. Réttarhöldin hófust fyrir herrétti í maí og hafa hægri menn í ísraelskum stjórnmálum varið hann þrátt fyrir að yfirmenn í hernum hafi fordæmt drápið. Refsingin verður kveðin upp síðar í dag en Azaria á yfir höfði sér allt að 20 ára fangelsi.

Dómarinn, Colonel Maya Heller, var meira en tvo og hálfa klukkustund að lesa upp dóminn og gagnrýndi hún verjendur Azaria harðlega. Hún segir að engin ástæða hafi verið til þess fyrir Azaria að skjóta Sharif þar sem engin ógn stafaði af honum. 

Samkvæmt frétt AFP var Azaria brosandi og fullur sjálfsöryggis þegar hann kom inn í réttarsalinn umkringdur fjölskyldu og stuðningsmönnum. En það breyttist þegar leið á lestur dómsforsetans og þegar dómurinn lá fyrir voru það foreldrar hans sem studdu son sinn. 

Málið kom fyrir sjónir almennings þegar  myndskeiði af drápinu var dreift á netinu 24. mars 2016. Þar sést Sharif liggjandi í götunni með skotáverka ásamt öðrum eftir að hafa sært ísraelskan hermann lítillega með hníf. Azaria, sem var 19 ára á þessum tíma, sést skjóta hann í höfuðið án þess að sýna nokkur svipbrigði. Lögmenn hans héldu því eins og áður sagði fram að hann hafi talið að Sharif væri í sprengjuvesti en hermennirnir höfðu kannað það áður og á myndskeiðinu virðist hermönnunum ekki stafa nein ógn af Palestínumönnunum.

Forsætisráðherra Ísraels, Benjamin Netanyahu, hefur ekki farið leynt með stuðning sinn með fjölskyldunni en hann hringdi meðal annars í föður Azaria til þess að sýna fjölskyldunni stuðning.

AFP
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert