May hittir Trump í vor

Theresa May, forsætisráðherra Bretlands.
Theresa May, forsætisráðherra Bretlands. AFP

Theresa May, forsætisráðherra Bretlands, mun funda með Donald Trump, forseta Bandaríkjanna, í vor. Þetta kemur fram í fréttatilkynningu frá breska forsætisráðuneytinu í dag. Trump tekur formlega við embætti síðar í þessum mánuði.

Starfsmannastjórar May, þau Nick Timothy og Fiona Hill, fóru til Bandaríkjanna í desember til þess að hitta nánustu samstarfsmenn Trumps. Heimsóknin var hluti af undirbúningnum fyrir fund May og Trumps að tillögu breska forsætisráðherrans.

May hafði áður rætt við Trump í síma í kjölfar kosningasigurs hans í nóvember. Bauð Trump May af því tilefni að heimsækja hann við fyrsta tækifæri. Fram kemur í fréttinni að gengið hafi verið frá fundinum í kjölfar fundar fulltrúa þeirra í desember.

Donald Trump, verðandi forseti Bandaríkjanna.
Donald Trump, verðandi forseti Bandaríkjanna. AFP

Bresk stjórnvöld hafa verið harðlega gagnrýnd fyrir að hafa ekki komið sér upp samböndunum við nánustu samstarfsmenn Trumps í aðdraganda forsetakosninganna í Bandaríkjunum og að hafa ekki gert ráð fyrir þeim möguleika að hann ynni sigur.

Eftir kosningarnar var Nigel Farage, fyrrverandi leiðtogi Breska sjálfstæðisflokksins, fyrsti breski stjórnmálamaðurinn til þess að hitta Trump en Farage hafði varið Trump í kosningabaráttunni og enn fremur komið fram á kosningafundi á hans vegum.

Trump lýsti því yfir í kjölfar fundarins að það yrði góð hugmynd að gera Farage að sendiherra Bretlands í Bandaríkjunum en bresk stjórnvöld tóku fálega í þá hugmynd.

Sjálfur hefur Farage lýst sig reiðubúinn til þess að verða breskum ráðamönnum innan handar við að styrkja tengslin við nánustu stuðningsmenn Trumps.

Nigel Farage, fyrrverandi leiðtogi Breska sjálfstæðisflokksins.
Nigel Farage, fyrrverandi leiðtogi Breska sjálfstæðisflokksins. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert