May hittir Trump í vor

Theresa May, forsætisráðherra Bretlands.
Theresa May, forsætisráðherra Bretlands. AFP

Th­eresa May, for­sæt­is­ráðherra Bret­lands, mun funda með Don­ald Trump, for­seta Banda­ríkj­anna, í vor. Þetta kem­ur fram í frétta­til­kynn­ingu frá breska for­sæt­is­ráðuneyt­inu í dag. Trump tek­ur form­lega við embætti síðar í þess­um mánuði.

Starfs­manna­stjór­ar May, þau Nick Timot­hy og Fiona Hill, fóru til Banda­ríkj­anna í des­em­ber til þess að hitta nán­ustu sam­starfs­menn Trumps. Heim­sókn­in var hluti af und­ir­bún­ingn­um fyr­ir fund May og Trumps að til­lögu breska for­sæt­is­ráðherr­ans.

May hafði áður rætt við Trump í síma í kjöl­far kosn­inga­sig­urs hans í nóv­em­ber. Bauð Trump May af því til­efni að heim­sækja hann við fyrsta tæki­færi. Fram kem­ur í frétt­inni að gengið hafi verið frá fund­in­um í kjöl­far fund­ar full­trúa þeirra í des­em­ber.

Donald Trump, verðandi forseti Bandaríkjanna.
Don­ald Trump, verðandi for­seti Banda­ríkj­anna. AFP

Bresk stjórn­völd hafa verið harðlega gagn­rýnd fyr­ir að hafa ekki komið sér upp sam­bönd­un­um við nán­ustu sam­starfs­menn Trumps í aðdrag­anda for­seta­kosn­ing­anna í Banda­ríkj­un­um og að hafa ekki gert ráð fyr­ir þeim mögu­leika að hann ynni sig­ur.

Eft­ir kosn­ing­arn­ar var Nig­el Fara­ge, fyrr­ver­andi leiðtogi Breska sjálf­stæðis­flokks­ins, fyrsti breski stjórn­mála­maður­inn til þess að hitta Trump en Fara­ge hafði varið Trump í kosn­inga­bar­átt­unni og enn frem­ur komið fram á kosn­inga­fundi á hans veg­um.

Trump lýsti því yfir í kjöl­far fund­ar­ins að það yrði góð hug­mynd að gera Fara­ge að sendi­herra Bret­lands í Banda­ríkj­un­um en bresk stjórn­völd tóku fá­lega í þá hug­mynd.

Sjálf­ur hef­ur Fara­ge lýst sig reiðubú­inn til þess að verða bresk­um ráðamönn­um inn­an hand­ar við að styrkja tengsl­in við nán­ustu stuðnings­menn Trumps.

Nigel Farage, fyrrverandi leiðtogi Breska sjálfstæðisflokksins.
Nig­el Fara­ge, fyrr­ver­andi leiðtogi Breska sjálf­stæðis­flokks­ins. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert

Erlent »

Fleira áhugavert