Það mun skaða hagsmuni Bandaríkjanna, þar á meðal þjóðaröryggismál, ákveði stjórnvöld að láta af leiðtogahlutverki sínu innan Sameinuðu þjóðanna. Þetta sagði Samantha Power, sendifulltrúi Bandaríkjanna hjá Sameinuðu þjóðunum, í kveðjubréfi sínu til stjórnvalda að því er Reuters fréttastofan greinir frá.
Powers varaði stjórnvöld við þeim afleiðingum sem slík ákvörðun gæti haft í för með sér. Donald Trump, sem tekur við embætti forseta landsins síðar í mánuðinum, hefur dregið mikilvægi Sameinuðu þjóðanna í efa, ekki hvað síst eftir að Öryggisráð Sameinuðu þjóðanna samþykkti á Þorláksmessu ályktun um að Ísraelsríki ætti samstundis að láta af framkvæmdum í landtökubyggðum á Vesturbakkanum. Þá hafa nokkrir þingmenn Repúblikanaflokksins hótað að draga úr fjárhagsstuðningi bandarískra stjórnvalda við samtökin.
Í kveðjubréfi sínu sagði Power: „Aðrar þjóðir munu halda áfram að fylgja okkur ef við höldum áfram að leiða. Án forystu Bandaríkjanna þá mun tómarúmið sem myndast á alþjóðasviðinu reynast bandarískum hagsmunum skaðlegt.“
Power nefndi því næst kjarnorkutilraunir Norður-Kóreu, stríðið í Sýrlandi, átökin í Líbýu og Suður-Súdan, loftslagsbreytingar, flóttamannavandann og Rússland meðal þeirra ástæðna sem gerðu þátttöku Bandaríkjanna nauðsynlega.
„Rússland heldur áfram að vera bandamönnum okkar ógn og heldur áfram tilraunum sínum til að hafa áhrif á stjórnmálaskipan í Evrópu og víðar. Við innan Sameinuðu þjóðanna verðum að sameinast í fordæmingu okkar á þessum aðgerðum,“ sagði Power.
Bandaríkar leyniþjónustustofnanir fullyrða að rússnesk stjórnvöld hafi staðið að baki netárásum í aðdraganda bandarísku forsetakosninganna og að þau hafi aðstoðað Donald Trump við að hafa sigur á Hillary Clinton, sem var forsetaframbjóðandi Demókrataflokksins. Rússnesk yfirvöld hafa alfarið neitað slíkum fullyrðingum.
Trump hefur tilkynnt að Nikki Haley, ríkisstjóri Suður-Karólínufylkis, muni taka við stöðu sendifulltrúa af Power þegar hann sest á forsetastól.