Herferð Rússa hafi engin áhrif haft

Donald Trump tekur við embætti síðar í mánuðinum.
Donald Trump tekur við embætti síðar í mánuðinum. AFP

Donald Trump, verðandi forseti Bandaríkjanna, fullyrðir að tölvuinnbrot Rússa hafi ekki haft áhrif á forsetakosningarnar, eftir að hafa fundað með yfirmönnum leyniþjónustna Bandaríkjanna í gær.

Tilefni fundarins var birting skýrslu frá yfirmanni njósnamála landsins í gær, en niðurstaða hennar er að Vladimír Pútín Rússlandsforseti fyrirskipaði herferð á veraldarvefnum til að halda Hillary Clinton frá því að komast í Hvíta húsið.

En þó að Trump þverneiti enn fyrir það að Rússar hafi haft áhrif á kosningarnar viðurkenndi hann þann möguleika að Kreml hefði átt hlut að máli í öðrum tölvuinnbrotum, meðal annars í stjórn Demókrataflokksins.

Lélegar netvarnir demókrata

Eftir fund Trumps í gær, ásamt yfirmönnum CIA, NSA og FBI, viðurkenndi hann einnig að tölvuárásir ógnuðu bandarískum stofnunum, fyrirtækjum og stjórnmálaflokkum.

„Þótt Rússland, Kína, önnur lönd, aðrir hópar og fólk sé stöðugt að reyna að brjótast inn í grunnstoðir stofnana okkar, fyrirtækja og samtaka, þar á meðal stjórn Demókrataflokksins, hafði það engin áhrif á niðurstöður kosninganna,“ segir Trump í yfirlýsingu.

Í nótt bætti hann svo við að stjórn Demókrataflokksins hefði haft lélegar netvarnir og í raun leyft innbrotinu að eiga sér stað, öfugt við stjórn Repúblikanaflokksins.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka