Ökumaður flutningabíls hefur verið skotinn í Jerúsalem en sá er grunaður um að hafa ekið flutningabíl í gegnum mannþröng í borginni. Fjórir eru sagðir látnir og minnst 15 manns slasaðir.
Ódæðið átti sér stað á vinsælli göngugötu nálægt gamla borgarhluta Jerúsalem. „Þetta er hryðjuverkaárás,“ segir talskona lögreglunnar við útvarpsstöð í Ísrael. Sama útvarpsstöð greinir frá því að lík liggi um götuna.
Guardian hefur eftir ísraelskum fjölmiðlum að bílstjórinn hafi ekið á hóp hermanna sem voru staddir á göngugötunni.
Uppfært kl. 12:25:
Hermennirnir sem ekið var á voru nýstignir út úr rútu við götuna Armon HaNatziv í Jerúsalem þegar bílstjórinn lét til skara skríða rétt fyrir klukkan 13:30 að staðartíma í Ísrael í dag. Samkvæmt ísraelska miðlinum Jewis Press eru fjórir látnir, einn lífshættulega slasaður og um það bil tíu minna slasaðir. Samkvæmt sama miðli er flutningabíllinn með ísraelskar númeraplötur.
Bílstjórinn hefur verið skotinn til bana en fréttum ber ekki saman um hver það var sem skaut bílstjórann.
Hamas samtökin hafa fagnað árásinni.
Uppfært kl. 12:35:
Yakov Kaminetzki, sjálfboðaliði við sjúkraflutningaþjónustu í Jerúsalem, hefur lýst atburðinum þannig:
„Þegar ég kom á vettvang sá ég nokkra vegfarendur sem höfðu verið keyrðir niður af stórum vöruflutningabil nálægt Armon Hanatziv-göngugötunni. Einhverjir vegfarendanna voru meðvitundarlausir og fastir undir bílnum. Ég bað stjórnstöðina að senda frekari liðsauka, meðal annars slökkvilið og björgunarsveitir auk fleiri viðbragðsaðila vegna fjölda hinna slösuðu. Nálægt bifreiðinni voru fleiri vegfarendur sem höfðu slasast mismikið og var ástand einhverra þeirra alvarlegt en aðrir minna slasaðir.“
Uppfært kl. 12:52:
Heilbrigðisstarfsfólk segir þrjár konur og einn karl hafa látist og 15 slasast í árásinni. Rútubílstjóri sem varð vitni að ódæðinu segir bílstjórann hafa ekið inn í hópinn og bakkað svo aftur yfir fórnarlömbin.
Lögregla segir hermenn sem voru í hópnum hafa skotið árásamanninn til bana en ekki var ljóst í fyrstu hvort hann væri látinn. Á myndum sem birtar hafa verið á samfélagsmiðlum má sjá hvar byssukúlum hefur verið skotið á framrúðu bílsins. Í ísraelskum fjölmiðlum hefur árásarmaðurinn verið sagður Palestínumaður.