Nýttu sér pyntingaraðferðir nasista

Nasistinn Alois Brunner en sýrlensk stjórnvöld eru sögð hafa nýtt …
Nasistinn Alois Brunner en sýrlensk stjórnvöld eru sögð hafa nýtt sér þekkingu hans. AFP

Nasistinn, Alois Brunner, sem bar ábyrgð á dauða að minnsta kosti 130.000 gyðingum í seinni heimsstyrjöldinni lést árið 2001 þá 89 ára að aldri. Hann lést í niðurníddum kjallara í Damaskus, höfuðborg Sýrlands. Þetta kemur fram í franska tímaritinu XXI.

Í umfjöllun um málið var rætt meðal annars við þrjá fyrrverandi leyniþjónustumenn í sýrlensku leyniþjónustunni. Rannsóknin er talin „mjög trúverðug“. Brunner var sagður hægri hönd nasistans Adolfs Eichmanns sem var tekinn af lífi árið 1962, en Eichmann stjórnaði útrýmingarherferð nasista gegn gyðingum

Árið 1954 dæmdu frönsk stjórnvöld Brunner til dauða. Hann var ekki viðstaddur og hefur aldrei náðst. Hann hefur að öllum líkindum dvalið lengst af í Sýrlandi eftir helförina. Hann er sagður hafa verið helsti ráðgjafi sýrlensku leyniþjónustunnar þar sem hann miðlaði af reynslu sinni af helstu pyntingaraðferðum sem nasistar notuðust við.  

Þetta er ekki í fyrsta skipti sem Brunner er talinn af. Árið 1961 var hann talinn af en þá varð hann fyrir sprengjuárás og missti sjón á öðru auga og nokkra fingur. Árið 2010 úrskurðuðu Austurrísk stjórnvöld hann látinn. Hann fæddist í Austurríki. 

Sýrlensk stjórnvöld virðast hafa snúið við honum baki. Í það minnsta er því haldið fram að hann hafi mátt dúsa einn í skítugri kjallarakompu þar sem hann veslaðist upp og dó. „Einn daginn var hurð herbergis hans lokað og ekki opnuð aftur.“ Þetta er haft eftir einum af vörðunum sem gættu þess að hann slyppi ekki út.  

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert