Donald Trump segir fréttir bandarískra fjölmiðla, um að rússneska leyniþjónustan hafi yfir að ráða persónulegum upplýsingum sem gætu skaðað hann, pólitískar nornaveiðar. Trump segir að þetta sé rakalaus þvættingur að Rússar hafi yfir slíkum upplýsingum að ráða.
Verðandi forseti Bandaríkjanna greindi frá þessu á Twitter en þar skrifar hann með hástöfum: „Falsaðar frétt – hreinræktaðar pólitískar nornaveiðar.“
FAKE NEWS - A TOTAL POLITICAL WITCH HUNT!
— Donald J. Trump (@realDonaldTrump) January 11, 2017
Níu dagar eru þangað til Trump sver embættiseið og hefur hann boðað blaðamenn á sinn fund síðar í dag en hingað til hefur hann látið sér nægja að koma skoðunum sínum á framfæri í gegnum samfélagsmiðilinn Twitter.
Til stóð að hann myndi fjalla um aðskilnað kaupsýslumannsins og forsetans á fundinum en talið er að á fundinum verði fremur rætt um samskipti hans við Rússa.
Líkt og fram hefur komið hafa leyniþjónustustofnanir Bandaríkjanna upplýsingar um að Rússar hafi staðið á bak við tölvuinnbrot hjá demókrötum í kosningabaráttunni í fyrra.
Bæði CNN og New York Times fjalla um upplýsingar sem yfirmenn leyniþjónustustofnana Bandaríkjanna afhentu Barack Obama forseta og Trump í síðustu viku. Þar kemur fram að Rússar hafi safnað saman persónulegum upplýsingum um Trump.