Rússar segja ekkert hæft í ásökununum

Trump segir um að ræða pólitískar nornaveiðar.
Trump segir um að ræða pólitískar nornaveiðar. AFP

Stjórnvöld í Rússlandi hafa neitað því að öryggisstofnanir landsins eigi í fórum sínum gögn sem gætu verið skaðvænleg Donald Trump, nýkjörnum forseta Bandaríkjanna. Dmitry Peskov, talsmaður Vladimir Pútín, segir ásakanirnar tilraun til að skaða samskipti Rússlands og Bandaríkjanna.

Í samantekt, sem Buzzfeed hefur birt, er því m.a. haldið fram að kosningateymi Trump hafi átt í leynilegum samskiptum við ráðamenn í Moskvu. Þá eru Rússar sagðir eiga gögn sem sýna fram á tengsl forsetans verðandi við vændiskonur.

Trump hefur fordæmt fréttaflutning af gögnunum og segir um að ræða pólitískar nornaveiðar.

Lögmaðurinn Michael Cohen, sem er sagður hafa ferðast til Prag í ágúst eða september 2016 til að ræða við fulltrúa Kremlin um innbrot í tölvukerfi Demókrataflokksins, hefur neitað því að hafa komið til borgarinnar.

Því er haldið fram í samantektinni sem Buzzfeed birti að gögnin sem Rússar hafa undir höndum séu þess eðlis að nota megi þau til að kúga forsetann.

Samantektin eru sögð koma frá fyrrverandi starfsmanni breskra öryggisyfirvalda og þá er haft eftir heimildum að CIA telji að eitthvað sé til í því sem þar kemur fram.

Nokkrir fjölmiðlar, þ. á m. BBC og Guardian, höfðu fengið afrit af samantektinni fyrir nokkru en ákváðu að birta hana ekki þar sem ekki hefur verið hægt að staðfesta þar sem þar kemur fram. Þá eru nokkrar efnislegar rangfærslur í textanum.

BBC sagði frá.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka