Tveir ítalskir piltar, 16 og 17 ára, hafa játað að hafa myrt foreldra annars þeirra á hrottalegan hátt í vikunni. Í ljós hefur komið að þeir voru kannabis- og tölvuleikjafíklar, að því er fram kemur í fréttum ítalskra fjölmiðla í dag. Morðin hafa vakið mikinn óhug meðal ítölsku þjóðarinnar sem er þekkt fyrir sterk fjölskyldubönd.
Piltarnir, Riccardo 16 ára og Manuel 17 ára, eru í haldi fyrir að hafa myrt foreldra þess fyrrnefnda, Salvatore Vincelli og Nunzia Di Gianni.
Hjónin áttu veitingastað í litlu þorpi skammt frá Ferrara í norðausturhluta Ítalíu. Þau fundust látin í rúmi sínu á mánudagskvöldið.
Riccardo játaði tveimur dögum síðar að hafa beðið vin sinn, Manuel, um að drepa þau, að því er fram kemur í gögnum málsins og lekið var til fjölmiðla. Manuel játar að hann hafi slegið Salvatore þrisvar og eiginkonu hans sex sinnum með exi sem notuð er til þess að höggva við í eldinn.
„Hún vildi ekki deyja,“ sagði Manuel við yfirheyrslurnar á meðan Riccardo sagði að hann hafi viljað þau dauð en ekki treyst sér sjálfur til þess að drepa þau. „Þau voru mamma mín og pabbi,“ sagði hann.
Piltarnir sögðu í upphafi að þeir hafi eytt mánudagskvöldinu á heimili Manuels en þegar betur var að gáð stóðst fjarvistarsönnunin engan veginn og þeir játuðu á sig verknaðinn á miðvikudag.
Ricccardo á að hafa boðið vini sínum, sem var fátækari en hann, 80 evrur fyrir loforð um að drepa þau og hét því að greiða honum eitt þúsund evrur til viðbótar eftir morðin.
Haft er eftir rannsóknarlögreglumanni að það hafi snert þá hversu kaldrifjuð morðin voru og á hvaða hátt þeir sögðu frá. „Þeir töluðu eins og þetta væri tölvuleikur,“ er haft eftir einum lögreglumanni í La Stampa.
Báðir piltarnir sátu klukkustundum saman á hverju kvöldi lokaðir inni í herbergjum sínum þar sem þeir spiluðu leiki í PlayStation eða XBox að sögn vina og fjölskyldu.
Manuel skrópaði reglulega í skólann þar sem hann sat oft heilu og hálfu næturnar við að spila tölvuleiki. Riccardo mætti mun betur í skólann en sinni náminu illa sem kostaði oft rifrildi innan fjölskyldunnar enda námsárangurinn í samræmi við iðkunina.
Skólafélagar þeirra segja að þeir hafi reykt kannabis daglega og Riccardo á að hafa prófað kókaín.
Foreldrar Manuels segja að hann hafi einangrað sig frá fjölskyldunni og að hann hefði aldrei getað framið morðin nema undir áhrifum fíkniefna. „Hann hlýtur að hafa tekið eitthvað. Það getur enginn maður drepið með köldu blóði á þennan hátt,“ segir móðir hans í viðtali við Corriere della Sera.
Lögmaður Riccardo segir að horfa beri á málið sem mistök samfélagsins, vandamál unglings sem þurfi verulega á hjálp að halda.
Samkvæmt ítölskum lögum verður réttað yfir þeim fyrir unglingadómstól. Ef þeir eru sakhæfir þá verði þeir dæmdir fyrir glæpi sína. Í einhverjum tilvikum hefur börnum, sem hafa framið morð á Ítalíu, verið komið fyrir hjá þekktum kaþólskum presti, Antonio Mezzi, sem segist reiðubúinn til þess að gæta piltanna á meðan afplánun refsingar stendur. Hann rekur athvarf fyrir ungmenni sem hafa lent á villigötum í lífinu.
Hann segir að núna sé tönglast á því á forsíðum blaðanna að piltarnir séu skrímsli. „En raunverulega vandamálið er að skólar og fjölskyldur eru ekki nægjanlega undirbúin undir nýjar áskoranir unglingsáranna,“ segir Mezzi.
Mezzi segir að þeir verði að gera sér grein fyrir því hvað þeir hafi gert. Að senda þá í fangelsi yrði mistök sem myndu valda því að þeir ættu ekki möguleika á að verða hluti af samfélaginu á ný.