Gætu alveg eins boðið Ríki íslam

Mevlut Cavusoglu, utanríkisráðherra Tyrklands.
Mevlut Cavusoglu, utanríkisráðherra Tyrklands. AFP

Ef Bandaríkin vilja fá fulltrúa Kúrda til viðræðna um framtíð Sýrlands sem eiga að fara fram í Astana, höfuðborg Kasakstans, síðar í þessum mánuði, mætti allt eins bjóða fulltrúum Ríkis íslam. Þetta sagði Mevlut Cavusoglu, utanríkisráðherra Tyrklands, við blaðamenn í dag.

Tyrkland hefur lengi talið Kúrda sem berjast í Sýrlandi sem öfgahóp eins og Ríki íslam, en kúrdísku hóparnir PYD og YPG hafa verið bandamenn vesturvelda í átökunum í Sýrlandi. Tyrkland hefur þó alltaf gagnrýnt það ástand. Fjöldi Kúrda býr í austurhluta Tyrklands og hafa yfirvöld þar sagt hópana tvo vera hryðjuverkasamtök sem vilji kljúfa Tyrkland.

Það eru rússnesk og tyrknesk stjórnvöld sem standa á bak við viðræðurnar í Astana.

Bandaríkjunum var nýlega boðið til viðræðnanna og sagði Cavusoglu að Tyrkir neituðu ekki mikilvægi þess að bandarísk stjórnvöld kæmu að viðræðunum. Aftur á móti byggjust þau við að ný stjórn Trump myndi hætta stuðningi við þá hópa sem Tyrkland flokkar sem hryðjuverkasamtök. „Núverandi stjórn Bandaríkjanna er að gera mikil mistök,“ sagði hann.

Stjórnarandstaðan í Sýrlandi hefur gefið út að hún styðji viðræðurnar.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert