Maður sem breytti heimsþekkta Hollywood-skiltinu á nýársnótt hefur nú gefið sig fram. Hann heitir Zachary Cole Fernandez og er þrítugur listamaður. Breytti hann „Hollywood“ yfir í „Hollyweed“ en weed er eitt fjölmargra orða sem notuð eru yfir kannabis.
Fernandez gengur undir nafninu JesusHands á samfélagsmiðlum en hann hefur nú verið kærður og getur átt yfir höfði sér 6 mánuði í fangelsi. Hann mætir fyrir dóm 15. febrúar.
„Þetta var eitthvað til að brosa og hlæja yfir,“ sagði Fernandez í samtali við Buzzfeed. Með honum við verknaðinn var fyrrverandi eiginkona hans, en það tók þau um þrjár klukkustundir að breyta skiltinu. Þá höfðu þau undirbúið verknaðinn í tvo mánuði. „Ég bjóst aldrei við því að þessi hrekkur yrði svona stór og færi svona víða,“ sagði Fernandez.
Hver stafur er um 13,7 metra hár. Það þurfti því ekki aðeins hugrekki til að klifra í stöfunum, heldur einnig talsverðan líkamsstyrk bæði við klifur og til að koma viðbótunum á staðinn.
Skiltið var upphaflega sett upp árið 1923, en þetta er ekki fyrsta skiptið sem átt er við það. Fyrir nákvæmlega 41 ári var sama breyting gerð á skiltinu, en þá hafði Kalifornía einmitt slakað örlítið á kannabislöggjöf sinni. Síðar kom í ljós að listanemandinn Danny Finegood stóð á bak við athæfið.
Frétt mbl.is: Breyttu Hollywood skiltinu