Varar Trump við sendiráðsflutningum

Jean-Marc Ayrault varaði Trump við því að taka „einarða“ og …
Jean-Marc Ayrault varaði Trump við því að taka „einarða“ og „einhliða“ afstöðu til málsins. AFP

Jean-Marc Ayrault, utanríkisráðherra Frakklands, segir það munu hafa afar alvarlegar afleiðingar ef Bandaríkjamenn ákveða að flytja sendiráð sitt í Ísrael frá Tel Aviv til Jerúsalem.

Frétt mbl.is: Segir markmiðið að „þvinga“ Ísrael

Ummælin lét ráðherrann falla í viðtali við franska sjónvarpið en hann sagðist telja að það myndi reynast Donald Trump, nýkjörnum Bandaríkjaforseta, ómögulegt að uppfylla kosningaloforð sitt um flutning sendiráðsins.

„Þegar þú ert forseti Bandaríkjanna getur þú ekki tekið svo einarða og einhliða afstefnu í þessu máli. Þú verður að skapa grundvöll að friði,“ sagði Ayrault, en í dag fer fram ráðstefna í París sem miðar að því að endurvekja friðarviðræður milli Ísraels- og Palestínumanna.

Hvorki Ísrael né Palestína eiga fulltrúa á ráðstefnunni en hana sitja erindrekar 70 ríkja og alþjóðlegra stofnana.

Mahmud Abbas, forseti Palestínu, varaði við því á laugardag að Trump myndi greiða friðarviðræðunum náðarhöggið með því að flytja bandaríska sendiráðið til Jerúsalem. Sá gjörningur myndi snúa áratugalangri stefnu Bandaríkjanna um að skipting eða „ráðstöfun“ borgarinnar verði ekki ákvörðuð nema í friðarviðræðum.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert