Pútín segir Trump ekki þurfa gleðikonur

Donald Trump næsti Bandaríkjaforseti (tv.) og Vladimír Pútín Rússlandsforseti. Pútín …
Donald Trump næsti Bandaríkjaforseti (tv.) og Vladimír Pútín Rússlandsforseti. Pútín segir fáránlegt að rússneska leyniþjónustan hafi fylgst með Trump þegar hann var í Rússlandi 2013. AFP

Breski njósnarinn sem er sagður standa á bak við ásakanirnar um að rússnesk stjórnvöld hafi gert netárásir á bandarísk netföng til að hjálpa Donald Trump að sigra forsetakosningarnar er „liðhlaupi og hrappur“, segir Sergei Lavrov, utanríkisráðherra Rússlands.  

Lavrov sagði rússnesk stjórnvöld ekki þurfa að sanna að þau væru saklaus af netstuldinum.

Fjallað hefur verið um að Christopher Steele, fyrrverandi njósnari hjá bresku leyniþjónustunni MI6 hafi útbúið minnisblöð, sem birt voru í síðustu viku þar sem því er haldið fram að rússnesk stjórnvöld eigi myndbönd af skrautlegri heimsókn Trump til Moskvu fyrir nokkrum árum.

Trump segir fullyrðingarnar rangar.

Steele í miklum metum hjá MI6

Steele rekur í dag upplýsingafyrirtæki í London og var að sögn heimildamanna fréttavefs BBC í miklum metum hjá yfirmönnum sínum hjá MI6 þegar hann starfaði þar.

Steele er sagður vera höfundur fjölda minnisblaða sem hafa verið birt í heild í sumum bandarískum fjölmiðlum. Þar er að finna ásakanir um að rússnesk stjórnvöld búi yfir skaðlegum upplýsingum um viðskiptahagsmuni Trumps, sem og skrautlegt einkalíf hans. Þar á meðal sé að finna upplýsingar um dvöl hans með gleðikonum á Ritz-Carlton hótelinu í Moskvu.

Bandaríska leyniþjónustan CIA taldi fullyrðingarnar nógu sannfærandi til að taka skýrslu af bæði núverandi forseta, Barack Obama, og Trump, sem tekur við embættinu næsta föstudag.

Trump sakaði í kjölfarið CIA um að leka upplýsingum um skýrslutökuna, en þeirri ásökun neitar leyniþjónustan alfarið.

Engu betri en gleðikonur

Vladimír Pútín Rússlandsforseti gerði í dag grín að fullyrðingunum um að rússneska leyniþjónustan hefði myndað Trump í félagsskap gleðikvenna þegar hann var í heimsókn í Moskvu í tengslum við fegurðarsamkeppnina Ungfrú alheimur árið 2013.

„Þegar Trump kom til Moskvu [...] þá var hann ekki stjórnmálamaður. Við vissum ekki einu sinni að hann hefði metnað í þá átt,“ sagði Pútín á fundi með fréttamönnum.

„Dettur nokkrum í hug að leyniþjónusta okkar elti alla bandaríska milljarðamæringa? Auðvitað ekki, það er fullkomlega fáránlegt.“

Þá spurði Pútín að því hvers vegna Trump ætti að finna sig knúinn til að ráða vændiskonur, þar sem hann gæti auðveldlega hitt fallegar konur sem tækju þátt í Miss Universe.

„Hann er fullorðinn til að byrja með og í öðru lagi þá er þetta maður sem hefur allt sitt líf verið að skipuleggja fegurðarsamkeppnir þar sem hann hittir fallegustu konur í heimi,“ bætti hann við.

AFP-fréttastofan segir Pútín því næst hafa sagt þá sem standa að baki skýrslunni vera verri en gleðikonur. „Þeir sem panta svona skýrslur sem beint er gegn kjörnum Bandaríkjaforseta, þeir eru verri en gleðikonur. Þeir hafa enga siðferðiskennd.“

Fréttin var uppfærð 18. janúar kl. 10.10.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert