Hundruð þúsunda mótmæltu Trump

Hundruð þúsunda streymdu út á götur borga í Bandaríkjunum í dag og tóku þátt í mótmælum kvenna daginn eftir að Donald Trump sór embættiseið. Bæði konur og karlar tóku þátt, fólk á öllum aldri, frægir sem minna þekktir.

Í höfuðborginni, Washington DC, var gangan fjölmennust og sýna mælingar að 275 þúsund manns höfðu ferðast með lestum, neðanjarðarlestum og strætisvögnum borgarinnar fyrir klukkan 11 í morgun að staðartíma. Það eru tæplega 50% fleiri en á sama tíma í gær þegar Trump sór embættiseiðinn.

Aðstoðarborgarstjóri Washington, Kevin Donahue, segir að talið sé að frá 300 þúsund til hálf milljón hafi tekið þátt í mótmælunum en borgaryfirvöld gefa ekki upp opinberar tölur með fjölda göngumanna.

Fjölmenn mótmæli voru víðar, í borgum eins og Boston, New York, Denver og Chicago en Chicago Tribune áætlar að 150 þúsund hafi tekið þátt þar.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert