Poppstjarnan Madonna kom öllum á óvart með því að stíga á stokk á fjölmennum mótmælafundi í höfuðborg Bandaríkjanna, Washington DC. „Velkomin í byltingu ástarinnar,“ sagði Madonna og bætti við: „Fyrir byltinguna. Við sem konur neitum að sætta okkur við nýja kynslóð harðstjóra.“
Auk Madonnu tóku margir aðrir til máls á fundinum. Þar á meðal femínistinn Gloria Steinem og leikkonan Ashley Judd.
„Við erum ekki hrædd. Við erum ekki ein. Við gefum ekki eftir,“ sagði Madonna við mannfjöldann.
Madonna barðist fyrir kjöri Hillary Clinton í kosningabaráttunni og sagði skömmu eftir að ljóst var að Trump hefði unnið að konum virtist vera ómögulegt að sætta sig við konu sem forseta.
Hún var harðorð í garð forsetans í ræðunni í dag. „Við þurfum á þessu myrkri að halda til þess að vekja okkur,“ sagði Madonna. Hún segir að sá betri hefði ekki farið með sigur af hólmi í kosningunum en að lokum er það sá betri sem stendur uppi sem sigurvegari.