Donald Trump forseti Bandaríkjanna sakar fjölmiðla um óheiðarleika varðandi myndbirtingar af innsetningarathöfninni á föstudag. Telur Trump að fjölmiðlar sýni ekki rétta mynd af fjöldanum en mun fleiri tóku þátt í mótmælum gegn Trump í gær en fylgdust með innsetningunni.
Trump segir að mannfjöldinn hafi náð allt að George Washington-minnismerkinu (Nálinni) þegar hann var settur inn í embætti forseta í þinghúsinu. Aldrei hafi fleiri fylgst með embættistöku forseta Bandaríkjanna, segir fjölmiðlafulltrúi forsetaembættisins.
Milljónir tóku þátt í mótmælagöngum út um allan heim í gær þar sem stefnu Trump var mótmælt. Í höfuðborg Bandaríkjanna er talið að hálf milljón manna hafi tekið þátt. Það eru að mati flestra mun fleiri en fylgdust með embættistökunni.
Markmið göngunnar var að benda á réttindi kvenna en margir telja að hætta sé á að lítið fari fyrir þeim réttindum með nýjum ráðamönnum í Washington.
Trump minntist ekkert á mótmælin þegar hann heimsótti höfuðstöðvar leyniþjónustunnar í Langley, Virginíu, en lét þess í stað fjölmiðla heyra það. Hann sakar fjölmiðla um að reyna að koma á illdeilum milli hans og öryggisstofnana ríkisins og sagði fréttamenn vera meðal þeirra óheiðarlegustu á jörðinni.
Ljósmyndir og myndskeið sem sýnd hafi verið í fjölmiðlum af embættistökunni gefi ekki rétta mynd og hann teldi að um 1,5 milljónir manna hafi fylgst með en fjölmiðlar segi að þeir hafi verið færri en 250 þúsund talsins.