Spænskur fjallgöngumaður, sem ætlaði sér að komast á topp Everest án súrefnis, var bjargað af fjallinu á föstudag. Hann er á batavegi á sjúkrahúsi í Katmandú eftir að hafa orðið fárveikur af háfjallaveiki.
Carlos Rubio, 28 ára, og félagi hans Alex Txikon, 35 ára, höfðu verið á Everest frá því snemma í janúar en þeir ætluðu sér að verða fyrstir til þess að komast á topp hæsta fjalls heims, án súrefnis að vetrarlagi, í tæplega þrjá áratugi.
Tvímenningarnir voru í búðum tvö, sem eru í 6.400 metra hæð yfir sjávarmáli, þegar Rubio veiktist hastarlega. Send var þyrla eftir honum á föstudag og var hann fluttur á sjúkrahús.
Txikon er enn á Everest og er kominn í búðir þrjú, sem eru í 7.200 metra hæð. Í færslu á Facebook segir Txikon að hann ætli sér að leggja af stað í búðir fjögur á mánudag. Það eru síðustu búðirnar sem fjallgöngumenn fara í áður en lagt er af stað í síðasta áfanga ferðalagsins, topp Everest.
Rubio segir að þeir hafi verið búnir að ganga í 10 mínútur á leið frá búðum tvö þegar hann veiktist. Hann segir í viðtali við AFP að um óheppni sé að ræða en hann hefur aldrei áður klifið fjall sem er yfir átta þúsund metrar að hæð. Rubio viðurkennir að áætlunin hafi verið djörf.
Síðasta skiptið sem fjallgöngufólk komst á topp Everest að vetrarlagi var árið 1993 er japönskum hópi tókst það. Aftur á móti hefur enginn farið að vetrarlagi á topp fjallsins án súrefnis frá því í desember 1987 þegar nepalskur fjallgöngumaður afrekaði það.
Sérfræðingar í fjallamennsku segja að fjallgangan sé miklu hættulegri að vetri en vori en á þeim árstíma reyna flestir að komast á tind Everest. Fjallið er 8.848 metrar að hæð og þekkt fyrir mjög erfiðar aðstæður, rok og gríðarlegan kulda, einkum að vetrarlagi.
Auk Txikon eru fjórir Nepalar með í för sem eru leiðsögumenn. Þeir hafa glímt við 28 metra á sekúndu og fjörutíu stiga frost vegna vindkælingar. Gert er ráð fyrir því að Txikon og fararstjórarnir reyni að komast á toppinn fyrstu vikuna í febrúar en á þessum árstíma er að meðaltali 36 stiga frost á efsta hluta leiðarinnar og fer allt niður í 60 stiga frost.
Rubio á von á því að vera útskrifaður síðar í dag og hann muni fljúga heim til Spánar á næstu dögum.