Forseti Bandaríkjanna, Donald Trump, hefur heitið því að draga allverulega úr skattbyrði og regluverki á fyrirtæki í landinu. Hins vegar mun hann leggja svokallaðan jaðarskatt á þau fyrirtæki sem hyggjast flytja með starfsemi sína úr landi. BBC greinir frá.
„Það eina sem þið þurfið að gera er að vera hér áfram,“ sagði Trump á fundi með helstu frammámönnum í atvinnulífinu á fyrsta formlega vinnudegi hans í Hvíta húsinu.
Trump lofaði að hann myndi lækka skatta og minnka umfang regluverksins að minnsta kosti niður um 75% til þeirra fyrirtækja sem yrðu áfram í landinu, samkvæmt AFP. Hann sagði jafnframt að hann myndi leggja jaðarskatta á innfluttar vörur frá þeim fyrirtækjum sem flyttu starfsemi sína út fyrir landsteinana.
„Við ætlum hvort tveggja að minnka skattbyrði á millistéttina og fyrirtæki og ríflega það,“ sagði Trump.
Á fundinum með Trump voru 12 framkvæmdastjórar umsvifamikilla fyrirtækja. Þeir sem voru á fundinum voru meðal annars: Mark Fields hjá bílaframleiðandanum Ford, Marillyn Hewson hjá Lockheed Martin, Alex Gorsky hjá Johnson&Johnson, Michael Dell hjá tölvufyrirtækinu Dell, Elon Musk hjá tæknifyrirtækinu SpaceX og Kevin Plank hjá íþróttavörufyrirtækinu Under Armour.