Vill ekki sjá bækur sínar brenndar

Verk eftir rithöfundinn Paulo Coelho hafa verið bönnuð í Líbýu.
Verk eftir rithöfundinn Paulo Coelho hafa verið bönnuð í Líbýu.

Stjórnvöld í Líbýu hafa bætt skáldverkum eftir brasilíska rithöfundinn Paulo Coelho í hóp verka eftir 100 rithöfunda og fræðimenn sem eru bönnuð í landinu. Verk eftir höfundana eru bönnuð í landinu vegna þess að þau eru talin „erótísk“ og sögð brjóta gegn íslömskum gildum.   

Um helgina birtu stjórnvöld myndband á Facebook af vörubílum sem voru með fullfermi af bókastöflum á leið frá borginni Tobruk til Benghaz sem liggur við Miðjarðarhafið. Bækurnar voru fluttar inn í landið frá Egyptalandi.

Coelho sagði í færslu sinni á Twitter um málið að hann hefði haft samband við brasilíska sendiráðið í Líbýu. „Það er lítið sem þeir geta gert. En ég get ekki setið aðgerðarlaus hjá og horft á bækurnar mínar brenndar á báli.“

Verk eftir egypska Nóbelsverðlaunahafann Naguib Mahfouz, sem hlaut bókmenntaverðlaun Nóbels árið 1988, eru einnig á bannlistanum. Auk arabískra þýðinga á verkum þýska heimspekingsins Friedrich Nietzsche og skáldsagna eftir bandaríska metsöluhöfundinn Dan Brown.

Í fyrrnefndu myndbandi segja trúarleiðtogi og fulltrúi öryggismála landsins að bækurnar beri vott um „menningarlega innrás“ og segja þær jafnframt innihalda upplýsingar um sjía-sið, kristni, galdra og erótík sem stríði gegn siðum súnni-múslima. Flestir landsmenn Líbýu eru þeirrar trúar.

Ekki liggur fyrir hvað verður um verk eftir þessa höfunda.  

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert