Yfirvöld í Yellowstone þjóðgarðinum í Bandaríkjunum líta það ekki mildum augum þegar ferðamenn fara út af þar til gerðum stígum og stíga inn á hverasvæðin, slíkt brot á reglum garðsins getur varðar háum sektum og jafnvel fangelsisvist.
Í síðustu viku fengu þrír Kanadamenn, þeir Charles Ryker Gamble, Alexey Andriyovych Lyakh og Justis Cooper Price Brown, skilorðsbundinn dóm, háa sekt og er bannað að stíga fætinum inn í bandarískar þjóðlendur næstu fimm árin fyrir að ganga á hverasvæðinu við Grand Prismatic hverinn í Yellowstone garðinum. Þeir Gamle og Lyakh voru aukinheldur dæmdir til viku fangelsisvistar fyrir uppátækið.
Þeir Gamble og Lyakh játuðu sig seka um að hafa valdið hættu með því að fara fótgangandi um hverasvæði, sem og fyrir að taka auglýsingamyndir án leyfis, fyrir að nota dróna til myndatöku á afgirtu svæði og fyrir að ferðast um ósnortið land á hjólum. Auk fangavistarinnar og fimm ára skilorðsbundins dóms, en á þeim tíma er þeim bannað að koma inn á bandarískar þjóðlendur, var þeim gert að greiða 2.000 dollara skaðabætur.
Þeim var þá einnig gert að fjarlægja allar myndir og myndbönd sem tekin voru af svæðinu af samfélagssíðum sínum.
Brown játaði sig seka um að hafa valdið hættu með því að fara fótgangandi um hverasvæðið og var hann dæmdur til að greiða 3.500 dollara sekt og til að inna af hendi samfélagsþjónustu fyrir Yellowstone þjóðgarðinn.
Fjallað er um málið á ljósmyndaravefnum Peta Pixel. Þar segir að mennirnir sem upphaflega voru fjórir, sá fjórði samdi um 8.000 dollara sekt utan dómstóla nú í haust, hafi í vor birt myndbönd á samfélagsmiðlum, sem sýni þá hunsa viðvörunarskilti og ganga um hverasvæðið utan stíga. Búið er að horfa á myndböndin tæplega 400.000 sinnum.
Lögfræðingur Gamble, Alex Rate, sagði í viðtali við Billings Gazette að skjólstæðingi sínum og vinum hans hefði verið ógnað og þeir skammaðir á samfélagsmiðlum fyrir uppátækið. Ákvörðun þeirra að birta myndband sem sýni þá ganga um hverasvæðið hafi verið slæm, en tilgangurinn hafi verið að hvetja fólk til að heimsækja þjóðgarðana.
Peta Pixel hefur eftir yfirmanni lögreglu þjóðgarðarins að með dóminum séu yfirvöld að senda skýr skilaboð varðandi vernd hverasvæðisins og öryggi þeirra sem þar eru á ferð.
Málið virðist heldur ekki vera hið eina sinna tegundar, því greint er frá því á fréttavef Yellowstone að síðasta haust hafi kínverskur ferðamaður sektaður um 1.000 dollara fyrir að ganga inn á hverasvæðið við Mammoth hverinn til að ná sér í hveravatn í „lækningaskyni“.