Telur að vatnspyntingar beri árangur

Donald Trump Bandaríkjaforseti.
Donald Trump Bandaríkjaforseti. AFP

Donald Trump Bandaríkjaforseti segir það enga spurningu að vatnspyntingar og aðrar yfirheyrsluaðferðir, sem flestir líta á sem pyntingar og eru bannaðar með lögum, beri árangur. Hann ætlar aftur á móti að láta það eftir yfirmönnum leyniþjónustunnar og varnarmálaráðuneytisins að ákveða hvort þessum aðferðum verður beitt á nýjan leik.

Þegar Trump var spurður út í vatnspyntingar í viðtali við ABC News sagði hann að nauðsynlegt væri að „láta hart mæta hörðu“ í ljósi þess að liðsmenn Ríkis íslams hafa afhöfðað Bandaríkjamenn og framið fleiri ódæði.

Ummæli Trumps eru í takt við það sem hann talaði um í kosningaherferð sinni.

Frétt mbl.is: Segir óvininn verðskulda vatnspyntingar

„Þegar þeir eru að höggva höfuðin af okkar fólki og öðru fólki [...] þegar Ríki íslams gerir hluti sem enginn hefur heyrt af síðan á miðöldum, myndi ég vera á móti vatnspyntingum? Hvað mig varðar þá þarf að láta hart mæta hörðu,“ sagði Trump.

Hann ætlar þó að reiða sig á James Mattis, yfirmann bandaríska varnarmálaráðuneytisins, og Mike Pompeo, yfirmann bandarísku leyniþjónustunnar, CIA, varðandi beitingu slíkra aðferða.

„Ég ætla að fylgja því sem þeir segja. Ef þeir vilja þetta ekki þá er það í góðu lagi. Ef þeir vilja gera þetta þá mun ég fylgja því í gegn. Ég vil gera allt innan ramma laganna. En finnst mér þetta bera árangur? Engin spurning, mér finnst það.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka