Borgum ekki fyrir múr Trumps segir Mexíkóforseti

Enrique Pena Nieto forseti Mexíkó sagði í ávarpi til þjóðar …
Enrique Pena Nieto forseti Mexíkó sagði í ávarpi til þjóðar sinnar að Mexíkó muni ekki greiða múr Trumps. AFP

Mexíkó mun ekki greiða fyrir múrinn sem Donald Trump Bandaríkjaforseti ætlar að reisa á landamærum Bandaríkjanna og Mexíkó. Þetta ítrekaði Enrique Pena Nieto Mexíkóforseti í ávarpi til þjóðar sinnar í gærkvöldi að því er greint er frá á fréttavef BBC.

Pena Nieto sagði að hann harmaði áætlanir um múrinn og sagði Mexíkó ekki trúa á slíka veggi. Hann hafði hins vegar engin orð um að hann myndi hætta við eða fresta ferð sinni til Bandaríkjanna næsta þriðjudag, þar sem hann á að hitta hinn nýja forseta. AFP-fréttastofan segir forsetann þó engu að síður íhuga að fresta heimsókninni.

Frétt mbl.is: Trump fyrirskipar byggingu múrs

Trump undirritaði opinbera tilskipun í gær sem kvað á um „óklífanlega áþreifanlega hindrun“ á landamærunum og fullyrti Trump að Mexíkó myndi endurgreiða Bandaríkjunum múrinn.

„Ég hef sagt það ítrekað áður; Mexíkó mun ekki greiða fyrir neinn múr,“ sagði Piena Nieto í ávarpi sínu.

Tekur fulla ábyrgð á að verja hagsmuni Mexíkó

„Þetta gerist á sama tíma og þjóð okkar er að takast á við nýtt regluverk um samvinnu, viðskipti, fjárfestingar, öryggi og fólksflutninga í norðurhluta Ameríku. Sem forseti tek ég fulla ábyrgð á því að verja hagsmuni Mexíkó og Mexíkóa.“

Pena Nieto sagði því næst að hann myndi ákvarða næstu skref sín út frá skýrslu framkvæmdaaðila í Washington og njóta við það aðstoðar verslunarráðs, fylkisstjóra og fleiri.

Mexíkó bjóði Bandaríkjamönnum vináttu og vilja til að komast að samkomulagi við bandarísk stjórnvöld, en það yrði að vera samkomulag sem kæmi stjórnvöldum beggja ríkja vel.

10.000 nýir starfsmenn við landamæravörslu

Trump sagði í viðtali við fréttastofu ABC-sjónvarpsstöðvarinnar í gær að Mexíkó myndi „algjörlega 100% endurgreiða Bandaríkjunum fyrir múrinn.“

Bandaríkjaþing þarf þó áður að samþykkja fjármögnun múrsins, sem var eitt af helstu kosningaloforðum Trump, en talið er að það muni kosti milljarða dollara að reisa slíkan vegg.

Trump talaði um krísu við landamærin þegar hann undirritaði tilskipunina við athöfn í ráðuneytinu sem fer með öryggismál heimafyrir. Tilskipunin kveður líka á um að 10.000 nýir starfmenn verði fengnir til landamæravörslu.

Næsta verk takmarkanir á fólksflutninga frá múslimaríkjum

„Þjóð án landamæra er ekki þjóð,“ sagði Trump. „Frá og með deginum í dag taka Bandaríkin aftur stjórn á eigin landamærum.“

Búist er við að Trump muni næst tilkynna takmarkanir á fólksflutningum frá sjö ríkjum Mið-Austurlanda og Afríku þar sem meirihluti íbúa eru múslimar, en slíkar aðgerðir kunna að hafa áhrif á flóttamannaaðstoð Bandaríkjanna.

Talið er að löndin sjö séu Sýrland, Írak, Íran, Líbýa, Súdan, Sómalía og Jemen.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert