Miklar áhyggjur af evrusvæðinu

AFP

Evrunni hefur mistekist að færa þau hagkerfi sem tilheyra evrusvæðinu nær hvert öðru efnahagslega. Þess í stað hafa kjarnaríki evrusvæðisins líkt og Þýskaland styrkt sig í sessi og fjarlægst jaðarríki svæðisins sem standa höllum fæti. 

Þetta kemur fram í greiningu matsfyrirtækisins Moody's. Fyrir vikið sé evrusvæðið dæmt til viðvarandi stöðnunar næstu árin og erfiðleika á stjórnmálasviðinu. Tilraunir til þess að koma á efnahagsumbótum í veikburða hagkerfum hafa að miklu leyti stöðvast að mati fyrirtækisins og skuldir þeirra hafa ekki lækkað. Fyrir vikið séu þau berskjölduð fyrir efnahagsáföllum.

„Evrópusambandið, sem átti að fela í sér samræmingu á hugmyndafræði og stefnumótun og sterka stöðu í efnahagsmálum og tekjumyndun, hefur ekki skilað sér,“ er haft eftir Dietmar Hornung, framkvæmdastjóra hjá Moody's, á fréttavef breska dagblaðsins Daily Telegraph. Þess í stað væru ríki sambandsins að fjarlægjast hvert annað.

Mikill hagvöxtur væri til dæmis á Írlandi en hræðileg staða í Grikklandi. Vel gengi í efnahagsmálum í Þýskalandi og Hollandi en aðra sögu væri að segja um Ítalíu. Betra væri ef veikari hagkerfi væru að ná hinum en það væri ekki raunin heldur þvert á móti.

„Við höfum miklar áhyggjur af evrusvæðinu til skemmri og lengri tíma. Þetta er óklárað verkefni og það er mikið um ósamræmi innan þess en engin samræming sem gæti orðið að mikilli áskorun á stjórnmálasviðinu,“ segir Hornung.

Haldist skuldir í ríkjum á suðurhluta evrusvæðisins háar gæti það leitt til efnahagserfiðleika sem gætu ógnað framtíð evrunnar. Þetta er ekki í fyrsta sinn sem Moody's lýsir yfir áhyggjum af evrusvæðinu en í maí á síðasta ári varaði fyrirtækið við því að jafnvel minni háttar efnahagserfiðleikar gætu leitt til endaloka Evrópusambandsins.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert