Sjálfsdýrkun Donalds Trumps, forseta Bandaríkjanna, og mikil þörf hans fyrir viðurkenningu og aðdáun gæti staðið stjórn hans fyrir þrifum á kjörtímabilinu, að mati fréttaskýrenda vestanhafs. Trump hefur sýnt að hann þolir ekki gagnrýni og tilhneiging hans til að sanka að sér jábræðrum er einnig talin geta komið honum í koll.
Sálfræðingar í Bandaríkjunum segja að Trump hafi sýnt mörg einkenni sjálfsdýrkunar á síðustu áratugum og eftir að hann varð forseti. Þetta mat þeirra virðist skýra að miklu leyti undarlegar yfirlýsingar hans og talsmanna hans, m.a. fullyrðingar hans um að hann hafi dregið að sér fleiri áhorfendur þegar hann tók við embættinu en nokkur annar forseti í sögu Bandaríkjanna.
Gerald F. Seib, aðalfréttaskýrandi The Wall Street Journal í Washington, furðar sig á því að forsetinn skuli hafa valið að fara í stríð við fjölmiðlana út af svo „lítilvægu“ máli. „Þetta val er sérstaklega furðulegt vegna þess að tiltæk gögn sýndu að hann dró ekki að sér stærri áhorfendahóp í National Mall en forveri hans í embættinu.“
Talið er að um 1,8 milljónir manna hafi verið í National Mall-garðinum í Washington þegar Barack Obama tók við forsetaembættinu árið 2009. Myndir af mannfjöldanum þá og þegar Trump sór embættiseiðinn sýndu að hann dró að sér miklu færri áhorfendur en forveri hans. Nýi forsetinn sagði jafnvel ósatt um veðrið í Washington þegar hann flutti ræðu sína við embættistökuna, sagði að rofað hefði til og sést sólar þegar hann flutti ræðuna og síðan byrjað að hellirigna um leið og henni lauk. Lítils háttar rigning var allan tímann þegar hann flutti ræðuna sem var átján mínútna löng.
Forsetinn vakti seinna furðu bandarískra þingmanna þegar hann endurtók þá fullyrðingu sína að hann hefði fengið færri atkvæði en Hillary Clinton í forsetakosningunum vegna þess að milljónir manna án kosningaréttar hefðu kosið hana. Hann kvaðst ætla að beita sér fyrir viðamikilli rannsókn á þessum „kosningasvikum“.
Hillary Clinton fékk um 2,9 milljónir atkvæða umfram Trump, en hann fékk þó meirihluta þeirra kjörmanna sem kjósa forsetann formlega. Lindsey Graham, einn atkvæðamestu þingmanna repúblikana, sagði að með fullyrðingum sínum um kosningasvik græfi forsetinn undan trausti manna á lýðræðinu í Bandaríkjunum. „Fullyrði forsetinn að 3,5 milljónir manna hefðu kosið ólöglega rýrir það traust á lýðræði okkar – og hann þarf að upplýsa hvers vegna hann heldur þetta,“ sagði hann.
Fjölmiðlafulltrúi forsetans, Sean Spicer, sagði seinna að fullyrðingar Trumps væru reistar á „rannsóknum og gögnum“ en neitaði að upplýsa hvaða gögn hann ætti við. Trump sagði í viðtali við ABC-sjónvarpið að ásakanir hans styddust við skýrslu Pew-rannsóknastofnunarinnar frá árinu 2012 en fréttamaðurinn sem tók viðtalið benti honum á að höfundar skýrslunnar fundu „ekki neinar vísbendingar um kosningasvik“. Forsetinn tók þá að gagnrýna skýrsluhöfundana. „Hvers vegna í ósköpunum voru þeir þá að skrifa skýrsluna?“ svaraði hann.
Stephen Collinson, fréttaskýrandi CNN, telur að rekja megi þessa undarlegu framgöngu forsetans til sterkrar þrár hans eftir virðingu og viðurkenningu. Hann hefur eftir Michael D'Antonio, höfundi nýlegrar bókar um ævi Trumps, að þessi þráhyggja hafi einkennt framgöngu hans í viðskiptum síðustu áratugi. „Hann hefur gert þetta alla ævina – allt frá barnæsku þegar hann hafði þörf fyrir að segja fólki að hann væri besti hafnaboltamaður New York-ríkis þótt til séu ferilskrár sem sanna að þetta er ekki satt. Faðir hans [Fred] var mjög kröfuharður í uppeldinu og sætti sig ekki við neitt annað en algeran sigur og árangur í öllu sem Donald gerði.“
Bandaríski rannsóknablaðamaðurinn David Cay Johnston, sem skrifaði bók um ævi Trumps, segir að hann sé eins og „tólf ára strákur í líkama sjötugs karls“. Michael D'Antonio, líkir Trump við „sex ára strák sem kemur heim af leikvellinum og getur varla beðið eftir því að geta sagt frá því að hann hafi skorað úrslitamarkið“.
Í grein í tímaritinu Vanity Fair er haft eftir sálfræðingum að Trump hafi sýnt mörg einkenni sjálfsdýrkunar. „Haldinn óvenjumikilli sjálfshrifningu,“ sagði Howard Gardner, prófessor í sálfræði við Harvard-háskóla, um Trump fyrir nokkrum árum. Sálfræðingurinn Ben Michaelis telur Trump vera „skólabókardæmi um sjálfsdýrkun“. Þriðji sálfræðingurinn, George Simon, segir að þegar hann haldi námskeið um sjálfsdýrkun sýni hann myndskeið af Trump því að hann viti ekki um nein betri dæmi um einkennin.
Vanity Fair segir að samkvæmt siðareglum samtaka bandarískra geðlækna megi þeir ekki segja frá geðrænni vanheilsu einstaklinga án þess að hafa rannsakað þá sjálfir og fengið leyfi þeirra til að skýra frá vandamálunum. Ummæli sálfræðinganna séu til marks um að þeir hafi miklar áhyggjur af sjálfsdýrkun Trumps.
Dan P. McAdams, prófessor í sálfræði við Northwestern University, kemst að sömu niðurstöðu í langri grein um persónuleika Trumps í tímaritinu The Atlantic. Hann segir það „næstum ómögulegt að tala um Trump án þess að nota orðið sjálfsdýrkun“.
McAdams tiltekur sem dæmi að Trump hefur nefnt „nánast allt sem hann snertir eftir sjálfum sér – allt frá spilavítum til steika og svokallaðs háskóla sem gefur fyrirheit um að kenna nemendunum að verða ríkir“. Hann tali einnig nær eingöngu um sjálfan sig í ræðum og viðtölum. „Þegar hann stóð upp til að tala við útför föður síns, sumarið 1999, talaði Trump aðallega um sjálfan sig. Hann hóf mál sitt með því að segja að þetta væri erfiðasti dagur í lífi hans sjálfs. Hann talaði síðan um mesta afrek Freds Trumps: að ala upp afburðasnjallan og víðfrægan son.“
Þýsk-bandaríski sálgreinandinn Erich Fromm lýsti dæmigerðum sjálfsdýrkanda svo í bókinni The Anatomy of Human Destructiveness: „Hann hefur aðeins áhuga á sjálfum sér, sínum þrám, sínum hugsunum, sínum óskum; hann talar látlaust um sínar hugmyndir, sína fortíð, sín áform... Annað fólk skiptir aðeins máli ef það þjónar honum eða ef hægt er að nota það; hann veit allt betur en allir aðrir.“
Á meðal einkenna sjálfsdýrkandans er takmarkalaus þörf fyrir athygli, viðurkenningu og aðdáun. Þýska vikuritið Der Spiegel hefur eftir sálfræðingum að sjálfsdýrkendur séu „svo ofurviðkvæmir fyrir gagnrýni“ að þeir líti á aðra sem óvini sína ef þeir sýni þeim ekki aðdáun. Í verstu tilvikunum séu sjálfsdýrkendurnir svo háðir athygli og aðdáun að þeir víli ekki fyrir sér að fara með ósannindi til að reyna að öðlast hana.
Fréttaskýrendur Der Spiegel telja að Trump hafi sýnt öll þessi einkenni og segja að forsetinn hafi sankað að sér jábræðrum þegar hann tilnefndi menn í mikilvæg embætti. „Allar þessar tilnefningar sýna hætturnar sem fylgja því að kjósa sjálfsdýrkendur í valdastóla. Þörf þeirra fyrir hollustu ásamt sterkri löngun þeirra til að skína skærar en allir aðrir er ekki góð blanda þegar stilla þarf upp liði hæfra embættismanna. Útkoman verður oft hópur getulausra meðhjálpara.“