Donald Trump, forseti Bandaríkjanna, segir að aðgerðir hans sem banna múslimum frá sjö ríkjum að koma til landsins hafi gengið „ljómandi vel“. Margir hafa aftur á móti gagnrýnt forsetan harðlega fyrir að mismuna fólki eftir trúarbrögðum.
Trump undirritaði á föstudag forsetatilskipum sem meinar flóttafólki að koma til landsins í að 90 daga, en aðgerðirnar ná til Írans, Íraks, Lýbíu, Sómalíu, Sýrlands, Súdans og Jemen.
„Þetta gengur ljómandi vel. Þið sjáið það á flugvöllunum, þið sjáið það út um allt,“ sagði Trump við blaðamenn í dag eftir að ferðamönnum frá ofangreindum ríkjum var meinað að fara um borð í flugvélar sem áttu að fljúga til Bandaríkjanna. Víða hafa brotist út mótmæli.
„Afar strangt bann verður í gildi og við munum leggjast í umfangsmiklar bakgrunnsrannsóknir, sem hefði átt að vera komið í gagnið hér í landi fyrir löngu,“ sagði forsetinn.
Margir hafa ákveðið að leita réttar síns vegna ákvörðunar forsetans og hafa mannréttindasamtök höfðað mál fyrir hönd tveggja Íraka sem voru stöðvaðir á Kennedy-flugvellinum í New York í gærkvöldi. Ljóst þykir að hörð barátta er fram undan fyrir bandarískum dómstólum.
Víða hafa brotist út mótmæli við bandaríska flugvelli vegna tilskipunar forsetans og hafa nokkrir verið handteknir.
Ekki liggur fyrir á þessari stundu hversu margir ferðamenn hafi orðið fyrir barðinu á aðgerðum forsetans, sem Trump segir að séu nauðsynlegar til að koma í veg fyrir að íslamskir öfgamenn og hryðjuverkamenn komi til landsins.