Viðburðarík fyrsta vika hjá Trump

Donald Trump Bandaríkjaforseti á skrifstofu sinni um borð í Air …
Donald Trump Bandaríkjaforseti á skrifstofu sinni um borð í Air Force One-flugvélinni. Mynd/AFP

Aðeins vika er liðin frá því að Donald Trump tók við embætti 45. Bandaríkjaforseta, en mikið hefur þó gerst á þeim stutta tíma. Trump hefur þegar skrifað undir 12 tilskipanir og boðað enn frekari breytingar.

„Ég man ekki eftir því að forseti hafi komið inn með svona miklum látum og ég er þó búinn að fylgjast með bandarískum stjórnmálum í að verða þrjátíu ár,“ segir Friðjón R. Friðjónsson, framkvæmdastjóri KOM og áhugamaður um bandarísk stjórnmál.

„Það má vera að menn hafi gert margar breytingar og skrifað undir margar tilskipanir en þeir hafa þá ekki fengið jafnmikla athygli og þessi innkoma Donalds Trump.“

Trump tók við embætti forseta föstudaginn 20. janúar og á þeirri viku sem liðin er hefur hann skrifað undir nokkrar umdeildar tilskipanir og lofað frekari umbótum.

Friðjón R. Friðjónsson, framkvæmdastjóri almannatengslafélagsins KOM, er mikill áhugamaður um …
Friðjón R. Friðjónsson, framkvæmdastjóri almannatengslafélagsins KOM, er mikill áhugamaður um bandarísk stjórnmál. Mynd/mbl.is

 „Manni virðist sem þetta sé hluti af einhverri strategíu um að hann sé ekki pólitíkur heldur athafnamaður. Þannig var framboðið hans og þannig ætlar hann alla vega að byrja að vera, með miklu kappi en kannski minni forsjá.“

Spurður hvort það sé efni breytinganna eða persónan Donald Trump sem orsakar þessa miklu umfjöllun segir Friðjón að líklega sé það blanda af hvoru tveggja. „Hann er stjarna en efni tilskipananna er umdeilt, að sjálfsögðu.“

Friðjón segir margt af því sem Donald Trump hefur gert í embætti ólíkt forverum hans. „Hann skrifar tvít til Mexíkó og forseti Mexíkó svarar honum og það er allt í einu komin upp diplómatísk krísa milli Bandaríkjanna og Mexíkó.“

Róttækar og umdeildar breytingar

Að því er fram kemur á vefmiðli The Telegraph hefur hann boðað „róttækustu og umdeildustu umbætur“ sem nokkur forseti hefur gert á sínum fyrstu dögum í embætti. Í umfjöllun CNN um fyrstu vikuna segir enn fremur að ljóst sé að Trump vilji sýna kjósendum sínum að hann standi við stóru orðin.

Eitt af fyrstu verkum Trumps var að skrifa undir tilskipun til að veikja stöðu heilbrigðistryggingakerfisins sem í daglegu tali kallast Obama Care og var sett á laggirnar með lagasetningu frumvarpsins Affordable Care Act.

Samkvæmt umfjöllun New York Times breytist í raun lítið með tilskipuninni en miðillinn segir þó að líta megi á hana sem eins konar yfirlýsingu. „Tilskipunin útskýrir þær leiðir sem ríkisstjórn Trump getur farið til að berjast á móti hluta heilbrigðislaganna þar til ný lög verða samþykkt.“

Donald Trump, forseti Bandaríkjanna, skrifar undir tilskipanir í Hvíta húsinu.
Donald Trump, forseti Bandaríkjanna, skrifar undir tilskipanir í Hvíta húsinu. Mynd/AFP

Mega ekki framkvæma meðgöngurof

Á mánudaginn setti Trump svo lög sem banna alþjóðlegum samtökum sem fá opinberan stuðning að framkvæma fóstureyðingar og/eða veita upplýsingar um möguleikann.

Að því er fram kemur í fréttaskýringu BBC hefur tilskipunin ekki áhrif á lögmæti fóstureyðinga innan Bandaríkjanna en þeir sem berjast fyrir kvenréttindum í þróunarlöndum, þar sem fjármagn og aðstaða er af skornum skammti, segja hana mikið áhyggjuefni.

Þá hefur Trump áður lýst því yfir að hann sé mótfallinn fóstureyðingum í Bandaríkjunum.

Engir nýir ríkisstarfsmenn

Trump skrifaði einnig undir tilskipun um að ekki megi ráða nýja ríkisstarfsmenn. Tilskipunin á við um ráðningar í stöður á vegum alríkisstjórnarinnar en undanþágur eru veittar fyrir ráðningar hersins, þjóðaröryggisstofnana og er varðar öryggi borgara.

Ríkisstjórnin segir að með tilskipuninni sé hægt að hægja á „stórbrotinni útþenslu á vinnuafli alríkisstjórnarinnar“ en í yfirliti The Telegraph kemur þó fram að tölfræði sýni fram á að starfsmenn á vegum alríkisstjórnarinnar hafi ekki verið færri síðan árið 1965.

Ríkisstjórn Obama vann lengi að TPP-samningnum en eitt fyrsta verk …
Ríkisstjórn Obama vann lengi að TPP-samningnum en eitt fyrsta verk Trump í embætti var að taka Bandaríkin úr samningnum. Mynd/AFP

BNA ekki hluti af TPP-fríverslunarsamningnum

Það var einnig á mánudaginn síðasta sem Trump skrifaði undir tilskipun um að draga til baka aðild Bandaríkjanna að TPP, fríverslunarsamningi ríkja við Kyrrahafið.

Ríkisstjórn Obama hafði unnið að samningnum í mörg ár en Obama hafði ekki sent samkomulagið til bandaríska þingsins til staðfestingar. 

Í umfjöllun BBC segir að samningnum hafi verið ætlað að „dýpka fjárhagsleg tengsl þjóðanna með því að lækka tolla og hlúa að viðskiptum til að efla vöxt.“

Trump sagði að tilskipunin væri „frábær fyrir ameríska vinnumanninn“ en hann segist heldur vilja að sér samningur verði gerður við hverja þjóð fyrir sig.

Umhverfisvernd „farin úr böndunum“

Á þriðjudaginn samþykkti Trump svo tvær nýjar olíuleiðslur en önnur þeirra hefur verið mjög umdeild. Í frétt mbl.is kom fram að af­kom­end­ur frum­byggja Banda­ríkj­anna og stuðnings­menn þeirra hefðu „mót­mælt verk­efn­inu harðlega, sem leiddi til þess að verk­fræðideild Banda­ríkja­hers neitaði að gefa leyfi fyr­ir fram­kvæmd­un­um.“

Samkvæmt umfjöllun The Telegraph sagði hann við það tækifæri að umhverfisvernd væri „farin úr böndunum.“

Þá hefur ríkisstjórn Trump bannað umhverfisverndarstofnuninni Environmental Protection Agency að fjármagna nýjar rannsóknir og að því er fréttir herma er starfsmönnum stofnunarinnar einnig bannað að tala við fjölmiðla.

Í nýrri frétt Independent kemur auk þess fram að Trump hyggist segja upp störfum vísindamanna sem rannsaka loftslagsbreytingar. Haft er eftir Myron Ebell, sem leiddi umskiptahóp Trump við stofnunina, að forsetinn muni líklega segja upp helmingi þeirra sem vinna við rannsóknir á loftslagsbreytingum.

Þar kemur einnig fram að ríkisstjórn Trump muni skera ríkisfjárveitingar til umhverfisverndarstofnunarinnar niður um að minnsta kosti 1 milljarð Bandaríkjadollara.

Margir hafa mótmælt Dakóta-leiðslunni og Obama hafnaði leiðslunni í nóvember …
Margir hafa mótmælt Dakóta-leiðslunni og Obama hafnaði leiðslunni í nóvember 2015. Mynd/AFP

„Mexíkómúrinn“ verði að veruleika

Loks staðfesti Trump að eitt af hans helstu kosningaloforðum, múr við landamæri Bandaríkjanna að Mexíkó, yrði að veruleika. Hann hefur lengi sagt að Mexíkó muni borga fyrir bygginguna en Enrique Pena Nieto hefur ávallt neitað að svo verði.

Í tilskipuninni segir einnig að 10 þúsund starfsmenn til viðbótar verði ráðnir til að sinna landamæraeftirliti.

Sean Spicer sagði í samtali við fjölmiðla í gær að bygging múrsins yrði mögulega fjármögnuð með því að leggja 20% innflutningsskatt á mexíkóskar vörur.

Frétt mbl.is: Myndi bitna á bandarískum neytendum

Birti lista yfir glæpi innflytjenda

Samkvæmt nýrri tilskipun um innflytjendamál mun ráðuneyti innanríkisöryggis vikulega birta opinberlega lista yfir glæpi sem framdir eru af innflytjendum í Bandaríkjunum.

Að því er fram kemur á vefmiðli Independent er ekki eingöngu um að ræða glæpi framda af ólöglegum innflytjendum heldur öllum innflytjendum, jafnvel þótt viðkomandi búi löglega í Bandaríkjunum. 

Ónægður með umfjöllun fjölmiðla

Trump sór embættiseið föstudaginn 20. janúar en fjölmiðlar þar vestra greindu fljótlega frá því að mun færri hefðu fylgst með í ár en þegar Barack Obama tók við embætti Bandaríkjaforseta árið 2009.

Í kjölfarið sakaði Trump fjölmiðla um óheiðarleika vegna myndbirtinga af innsetningarathöfninni en hann telur fjölmiðla ekki hafa sýnt rétta mynd af fjöldanum. Trump sagði að í raun hefðu aldrei fleiri fylgst með embættistöku Bandaríkjaforseta.

Nú síðast í morgun birtust fréttir þess efnis að Trump krefðist fleiri mynda af innsetningarathöfninni, sem hann telur að muni sanna að fjölmiðlar hafi logið til um fjölda þeirra sem fylgdust með.

Fjölmiðlafulltrúi Hvíta hússins, Sean Spicer, sagði í tilkynningu til fjölmiðla að 420 þúsund manns hefðu notað almenningssamgögnur í borginni á degi innsetningarhátíðarinnar. Til samanburðar sagði Spicer að 317 þúsund hefðu verið viðstaddir embættistöku Obama.

Samkvæmt upplýsingum The Guardian kom þó í ljós að talan átti við um hversu margir hefðu nýtt sér almenningssamgöngur fyrir klukkan 11 á innsetningarhátíðinni árið 2013, þegar Obama hafði þegar verið forseti í 4 ár.

Sean Spicer er upplýsingafulltrúi Hvíta hússins.
Sean Spicer er upplýsingafulltrúi Hvíta hússins. Mynd/AFP

Metro Washington deildi þá tölum frá árinu 2009, þegar Obama tók fyrst við embætti, en samkvæmt þeim höfðu 193 þúsund ferðir verið farnar klukkan 11 föstudaginn 20. janúar 2017. Til samanburðar höfðu 513 þúsund ferðir verið farnar klukkan 11 þriðjudaginn 20. janúar 2009.

Kellyanne Conway, einn helsti ráðgjafi Trumps, varði Spicer með því að segja að hann hefði notast við „óhefðbundnar staðreyndir“.

Mótmælendur kveiktu meðal annars í limósínu.
Mótmælendur kveiktu meðal annars í limósínu. Mynd/AFP

Fjölmiðlamenn handteknir

Að minnsta kosti sex fjölmiðlamenn, sem voru viðstaddir óeirðir sem brutust út við innsetningarathöfn Trump í síðustu viku, hafa verið handteknir og verða þeir ákærðir fyrir glæpsamlegar óeirðir. 

Í frétt New York Times kemur fram fjölmiðlamennirnir sex hafi verið á staðnum til að fjalla um óeirðirnar og að um einsdæmi sé að ræða verði þeir ákærðir. Haft er eftir Carlos Lauria, talsmanni nefndar um vernd fjölmiðlafólks (Committee to Protect Journalists), að ákærurnar séu „gjörsamlega óviðeigandi og óhóflegar“. 

„Við höfum áhyggjur af því að þessar handtökur sendi hrollvekjandi skilaboð til fjölmiðlafólks sem fjallar um mótmæli í framtíðinni.“

Fleiri á dagskránni

Í yfirliti The Telegraph er einnig minnst á áætlanir Trump en hann hefur sagst ætla að herða innflytjendalög allverulega, meðal annars með því að setja tímabundið bann á vegabréfsáritanir til fólks frá Íran, Írak, Líbýu, Sómalíu, Súdan, Sýrlandi og Jemen. Meirihluti íbúa þessara landa eru múslimar.

Þá hefur Trump sagt að hann hafi mikla trúa á því að pyntingar virki. Telur hann til dæmis að Bandaríkin ættu að nota pyntingar í baráttunni gegn hryðjuverkum.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka