Dómsmálaráðherrar sextán ríkja Bandaríkjanna, þar á meðal Kaliforníu og New York, hafa fordæmt tilskipun Donalds Trumps Bandaríkjaforseta vegna innflytjendamála og segja hana ekki samrænast stjórnarskránni. Þeir hafa heitið því að berjast gegn henni.
Frétt mbl.is: „Allt í tómu tjóni“
Dómsmálaráðherrarnir, sem eru allir demókratar, gáfu út sameiginlega yfirlýsingu þar sem þeir lýstu yfir andúð sinni á ákvörðun Trumps.
„Sem yfirmenn laga yfir 130 milljónum Bandaríkjamanna og erlendum íbúum í okkar ríkjum, fordæmum við ólöglega tilskipun Trumps forseta, sem samræmist ekki stjórnarskránni og er í andstöðu við það sem bandarískt er,“ skrifuðu þeir.
Þeir hétu því að „vinna saman að því að tryggja það að stjórnvöld virði stjórnarskrána og beri virðingu fyrir sögu landsins sem innflytjendaþjóð og geri engan að skotmarki vegna fæðingarstaðar síns eða trúar.“
Dómsmálaráðherrarnir bætast í hóp fjölmargra þjóðarleiðtoga og annarra sem hafa gagnrýnt ákvörðun Trumps.