Svartur litur steinanna, skærgrænn mosinn og kræklóttar rætur hárra frumskógartrjánna sveipa hin fornu hof Kambódíu enn frekari dulúð. Hofin hafa í hundraðavís fundist síðustu áratugi. Þó að Angkor Wat sé þeirra frægast eru önnur, s.s. Bayon með sín 216 steinandlit, ekki síður tilkomumikil. Þau er flest byggð fyrir um þúsund árum og bera listfengi og hugviti horfins menningarheims glöggt vitni.
Þessar byggingar, sem voru gullslegnar og skreyttar eðalsteinum í fyrndinni, kostuðu þó blóð, svita og tár þræla. Þær voru reistar til að gleðja guði og gyðjur og tryggja þeim sem þær byggðu farsælt framhaldslíf. Nú hefur tíminn litað hofin svört, orrustur og gríðarlegur gróandi skógarins splundrað þeim mörgum og gullið og gersemarnar eru flestar horfnar fyrir löngu. En engu að síður fyllast þeir sem berja þessar byggingar augum lotningu og fá flestir ekki nóg af því að velta fortíð þeirra - og framtíð - fyrir sér.
Það er fremur spilling en öfgar í hitafari sem plagar íbúa Kambódíu og hefur svo verið í áraraðir. Ferðaþjónusta í landinu hefur tekið mikinn kipp síðasta áratuginn, ekki síst vegna hofanna stórkostlegu í hinni fornu borg Ankgor Thom. En gróðinn sem á að fara í uppbyggingu innviða og tímafrekar og dýrar viðgerðir á hofunum fer að hluta til í vasa spilltra stjórnvalda og viðskiptajöfra.
Það er ekki langt síðan að ferðamenn fóru að flykkjast til Kambódíu í Suðaustur-Asíu enda ástandið þar lengi ótryggt meðan á yfirráðum Rauðu Kmeranna og þjóðarmorði þeirra stóð. Forsetinn sem nú situr að völdum hefur gert svo í 25 ár og heimamenn orðnir svartsýnir á að nokkuð annað en ellidauði hans muni breyta því.
Fyrir um 1-2 áratugum voru hótelin fá og þurfti að bóka þar herbergi með allt að árs fyrirvara. Flestir sem koma til landsins vilja sjá hofin í Angkor. Skógurinn hafði gleypt mörg þeirra en á síðustu áratugum hafa þau verið grafin út úr skógarþykkninu og opnuð almenningi. Ekki hafa viðgerðirnar alltaf verið góðar; dæmi eru um að steinum rústa hofanna hafi verið raðað rangt saman og þau líta því út eins og spilaborg sem riðar til falls.
Eitt best varðveitta hofið er það stærsta og það vinsælasta, Angkor Wat. Svo stórt er hofið að það er sagt stærsta trúarbygging heims. Og engan skal undra að fólk vilji sjá þetta magnaða mannvirki.
Suryvarman II., konungur Kmeraveldisins, lét byggja það snemma á 12. öld. Það var byggt að hindúasið fyrir guðinn Visnu en var við lok aldarinnar breytt í Búddahof. Sagt er að um milljón manns, m.a. þrælar, hafi reist það á um 25 árum. Grjótið var flutt langt að, um 120 kílómetra leið. Því var ýmist fleytt á bambusflekum niður árnar eða dregið að byggingarsvæðinu af um 40 þúsund fílum. Umhverfis hofið er kastaladíki. Byggingin átti að líkjast fjallinu Meru, íverustað hindúaguða.
Hundruð ferðamanna koma að Angkor Wat fyrir sólarupprás dag hvern og fylgjast með því þegar fyrstu geislar sólar baða hofið. Ólíkt öðrum hofum snýr það í vestur og þegar sólin rís að baki því speglast það með einstökum hætti í lygnu díkinu.
Hofið er ekki síst þekkt fyrir turnana fimm og fágætar fornar sögur sem meitlaðar hafa verið í steinveggina. Smáatriðin eru ótrúleg og ljóst að miklir listamenn hafa verið þar að verki fyrir um 900 árum.
Ástæðan fyrir því að hofið hefur varðveist svo vel er sú að það hefur aldrei fallið í gleymsku. Munkar hafa sótt það í gegnum aldirnar og gætt þess að krumlur frumskógartrjánna, sem eyðilagt hafa mörg hofanna í Kambódíu, hafa aldrei náð festu í byggingunni.
Einn fyrsti vesturlandabúinn til að sjá Angkor Wat var portúgalski munkurinn António da Madalena. „[Hofið] er svo óvenjuleg bygging að ekki er mögulegt að lýsa því með orðum, sérstaklega þar sem það líkist ekki nokkurri annarri byggingu veraldar,“ skrifaði Madalena síðar. „Það er með alla þá turna, skreytingar og fágun sem hægt er að ná fram með mannlegri snilligáfu.“
En það eru ekki aðeins trén, mosinn og fléttur frumskógarins sem hafa skemmt hofin. Þau hafa reglulega orðið fyrir árásum í gegnum aldirnar og sum verið eyðilögð vísvitandi til að brjóta viðnám íbúa landsins á bak aftur.
Dæmi um slíka eyðileggingu má finna í Ta Prohm, hofinu sem varð frægt eftir að kvikmynd með Angelinu Jolie í aðalhlutverki, Tomb Raider, var tekin þar upp að hluta. Í því hofi má reyndar sjá afleiðingar beggja þessara eyðingarafla; skógarins og árása mannanna. Enda er einn frægasti staður hofsins þar sem sjá má rætur risavaxins trés flétta sig um steina byggingarinnar.
Ta Prohm var byggt á 12. öld, fyrst sem hindúahof en var síðar breytt í Búddahof. Í hofinu bjuggu fyrst í stað hundruð manna og á svæðinu í kring um 800.000 manns sem veittu íbúum hofsins þjónustu.
Við fall Kmeraveldisins á fimmtándu öld var hofið yfirgefið og í eyði og niðurníðslu í aldir. Í byrjun 21. aldarinnar, þegar endurbætur hófust fyrir alvöru á hofunum í Kambódíu, var ákveðið að leyfa Ta Prohm að vera í því ástandi sem það fannst í sem dæmi um hvernig frumskógurinn og árásir höfðu farið með þessi miklu mannvirki.
Í ár er þó hafin enduruppbygging á hluta hofsins í samstarfi við indversk stjórnvöld. Miða þær fyrst og fremst að því að tryggja það að rústirnar sem eftir standa hrynji ekki. Líkt og fyrir um 900 árum má því nú sjá steinsmiði höggva til grjót innan múra hofsins og raða steinum úr rústunum upp á nýjan leik. Slíkt púsluspil er tímafrekt og vandasamt ef vel á að vera. Ferðamenn kaupa passa sem veitir þeim aðgang að hofunum. Ágoðinn á að fara í uppbyggingu en í þessu fátæka landi er spillingin mikil og peningarnir fara ekki alltaf á rétta staði.
Eitt tilkomumesta hofið, og það sem flestir standa agndofa frammi fyrir er Bayon, stundum skrifað Bayong. Það var eins og mörg hofanna reist á blómaskeiði Kmeraveldisins, seint á 12. öld og í upphafi þeirrar 13. Hofið stendur í miðju hinnar fornu borgar Angkor Thom. 54 turnar prýða hofið og er það skreytt með 216 brosandi andlitum sem höggvin hafa verið í steininn. Þykir hofið sýna arkitektúr tímabilsins einstaklega vel og augljóst er að ekkert hefur verið til sparað við byggingu þess.
Enn eru að finnast hof í skógum Kambódíu. Árið 2015 fundust til að mynda tvö hof til viðbótar og talið er að tugir, ef ekki hundruð, leynist enn í þéttum skóginum. Góðar fréttir bárust líka í ár af uppbyggingu þeirra. Ríkið tók fyrir tveimur árum yfir miðasölu að hofunum eftir að ljóst var að einkaaðili, sem hélt utan um hana, var spilltur. Í fyrra heimsóttu um 2 milljónir ferðamanna Angkor Wat og fleiri hof. Tekjurnar námu 63,5 milljónum dala, rúmlega 7 milljörðum króna.
Það er óskandi að fjármunirnir verði nýttir í varðveislu þessarar einstöku borgar sem örvar svo skilningarvitin að þeir sem njóta í návígi verða næstum því ringlaðir.