Bandaríska heimavarnarráðuneytið greindi frá því í dag að það muni framfylgja forsetatilskipun Donalds Trumps Bandaríkjaforseta sem meinar flóttafólki og hælisleitendum að koma til landsins. Ráðuneytið mun aftur á móti verða við dómsúrskurði sem hefur frestað hluta aðgerðanna tímabundið.
„Forsetatilskipunin er enn til staðar. Bannaðar ferðir verða áfram bannaðar og ríkisstjórn Bandaríkjanna áskilur sér rétt til að afturkalla vegabréfsáritanir hvenær sem þörf krefur í þágu þjóðaröryggis eða til að tryggja öryggi almennings,“ segir ráðuneytið í tilkynningu.
„Tilskipun forsetans á aðeins við lítinn hluta alþjóðlegra farþega og er fyrsta skrefið að því að tryggja stjórn yfir landamærum Bandaríkjanna og þjóðaröryggi.“
Ráðuneytið segir enn fremur, að það muni framfylgja dómsúrskurðum. Það eigi líklega einnig við um úrskurð alríkisdómara sem fyrirskipaði yfirvöldum að vísa ekki hælisleitendum eða öðrum ferðamönnum úr landi sem hafa verið stöðvaðir við landamæri Bandaríkjanna.
Bandaríski alríkisdómarinn Ann Donnelly frestaði brottvísunum flóttafólks í gær í kjölfar tilskipunarinnar sem Trump undirritaði á föstudag. Samkvæmt henni munu Bandaríkin ekki taka á móti flóttafólki næstu 120 daga. Þá munu ríkisborgarar frá sjö ríkjum, þar sem múslimar eru í meirihluta, ekki fá bandaríska vegabréfsáritun næstu þrjá mánuði.
Víða brutust út fjölmenn mótmæli á bandarískum flugvöllum eftir að undirritun Trumps lá fyrir. Margir hafa lýst yfir áhyggjum, bæði almenningur og stjórnmálamenn, vegna ákvörðunar forsetans.