Bandarískir sérsveitarmenn eru sagðir hafa fellt yfir 40 liðsmenn al-Qaeda-hryðjuverkasamtakanna í Jemen. Nokkrar Apache-herþyrlur tóku þátt í aðgerðunum sem áttu sér stað í héraðinu al-Baida sem er í miðhluta landsins.
Greint er frá þessu á vef breska ríkisútvarpsins (BBC) og er þetta haft eftir yfirvöldum í Jemen og ættbálkum í landinu.
Þrír foringjar al-Qaeda eru sagðir á meðal þeirra sem féllu í atökum í þorpinu í Yakla-hverfinu, en bardaginn er sagður hafa staðið yfir í 45 mínútur.
BBC segir að talsmenn bandaríska hersins hafi ekki tjáð sig um málið. Hingað til hefur Bandaríkjaher notað dróna til að gera loftárásir á liðsmenn samtakanna í Jemen.
BBC hefur eftir heimildum að 41 vígamaður og 16 óbreyttir borgarar hafi fallið í átökunum. Embættismaður í héraðinu segir að þyrlurnar hafi gert árás á sjúkrahús, skóla og mosku.
Abdul Raouf al-Dhabab, einn af leiðtogum al-Qaeda í landinu, er sagður á meðal þeirra sem féllu í hernaðaraðgerðinni sem var gerð að næturlagi. Herinn notaði jafnframt dróna í aðgerðinni.