Ráðamenn í Mexíkó fögnuðu í dag hugmynd Reince Priebus, starfsmannastjóra Hvíta hússins, um að eiturlyfjahringir yrðu látnir standa straum af kostnaði við að reisa umdeildan vegg á landamærum Bandaríkjanna og Mexikó sem Donald Trump Bandaríkjaforseti hefur boðað.
Frá þessu er greint í frétt AFP en Trump hefur ítrekað reitt stjórnvöld í Mexíkó til reiði með yfirlýsingum um að Mexíkó muni greiða fyrir vegginn. Hafa ráðmenn í Mexíkó alfarið vísað því á bug að greiða fyrir framkvæmdina. Priebus sagði í gær að ýmsir möguleikar væru til þess að fjármagna vegginn sem reisa á á landamærunum sem eru um 3.200 kílómetrar á lengd.
„Það liggur ekki fyrir nein endanleg niðurstaða um hvernig þessi veggur verður fjármagnaður af Mexíkó,“ sagði Priebus við bandarísku sjónvarpsstöðina CBS. Það gæti verið með skattlagningu innflutnings frá Mexíkó. En það gæti líka orðið á kostnað eiturlyfjahringja. Sömuleiðis með því að sekta þá sem kæmu ólöglega til Bandaríkjanna frá Mexíkó. Eða þetta allt saman.
Haft er eftir Luis Videgaray, utanríkisráðherra Mexíkó, að jákvætt væri að bandarískir ráðamenn væru farnir að tala um að aðrir greiddu fyrir vegginn en heimaland hans. Fagnaði hann hugmyndinni um að láta eiturlyfjahringi borga brúsann. Þeir væru jú ekki Mexíkó.
„Þetta er merki – alla vega eins og ég skil það – sem er ástæða til að fagna þar sem við sjáum hvernig umræðan er þegar að breytast,“ sagði ráðherrann enn fremur. Sagði hann að bandarískir og mexíkóskir embættismenn ættu hugsanlega eftir að funda innan fárra daga.
Priebus útskýrði hins vegar ekki með hvaða hætti ætti að fá fjármagn frá eiturlyfjahringjunum. Hins vegar kemur fram í fréttinni að fjármálaráðuneyti Bandaríkjanna hafi fryst eignir eiturlyfjabaróna í landinu. Dómstólar gætu einnig lagt hald á eignir slíkra einstaklinga ef þeir hefðu verið sakfelldir.