Formleg innlimun Steve Bannon, aðalráðgjafa Donalds Trump Bandaríkjaforseta, í þjóðaröryggisráð landsins, hefur vakið óróa hjá mörgum fyrrverandi embættismönnum. Segja þeir að um sé að ræða fordæmalausa stjórnmálavæðingu mikilvægra ákvarðana, sem geti skilið á milli friðar og stríðs.
Bannon, sem áður stýrði hinum hægrisinnaða fréttavef Breitbart, mun eftirleiðis vera fastur meðlimur aðalnefndar ráðsins. Samhliða tilkynnti Hvíta húsið að yfirmaður njósnamála landsins og formaður herforingjaráðsins myndu ekki sækja fundi ráðsins, nema um væri að ræða mál sem tengdust þeim beint.
Susan Rice, fyrrverandi þjóðaröryggisráðgjafi ríkisstjórnar Obama, er ein þeirra sem lýst hafa furðu sinni á ákvörðun Trumps.
David Rothkopf, höfundur sagnfræðibókar um ráðið, segir umrótið í utanríkisstefnu Trumps þegar hafa leitt til ákveðinnar krísu á alþjóðavísu.
„Við erum með stigmagnandi ringulreið, beina afleiðingu ákvarðana Hvíta hússins, sem teknar hafa verið án samráðs við alríkiskerfið, og hafa engin fordæmi í nútímasögunni,“ hefur The Guardian meðal annars eftir Rothkopf.
„Það er ekki of djúpt í árinni tekið að segja að við stefnum í miklar ógöngur.“
Segir hann Trump vera að mynda öryggisráð með röngu fólki við borðið, og ranga manneskju við enda borðsins - Trump sjálfan.
Ríkisstjórnir annarra landa séu þá einnig líklegar til að reyna að semja beint við Bannon og hans fylgilið, til að tryggja sér aðgang að eyra Bandaríkjaforsetans.
Talsmaður Hvíta hússins, Sean Spicer, staðhæfir að ráðið sé ekki öðruvísi skipað en í valdatíð Bush og Obama. Formaður herforingjaráðsins og yfirmaður njósnamála séu alltaf velkomnir á fundi, en þyrftu ekki að mæta þegar ekki væri verið að ræða mál sem heyrðu beint undir þá.
Á þeim tíu dögum sem liðnir eru frá embættistökunni hefur Bannon í sífellt auknum mæli þótt valdamesti maðurinn í Hvíta húsinu, á eftir sjálfum forsetanum. Svo virðist enda sem Trump ráðfæri sig ekki við marga aðra áður en ákvarðanir eru teknar.
Nú þegar rykið er farið að setjast að einhverju leyti, eftir ringulreiðina sem skapaðist þegar Trump skipaði fyrir um að ríkisborgurum sjö ríkja yrði meinað að koma til landsins, hafa ýmis atriði komið í ljós.
Þannig er orðið ljóst að framkvæmda- og fjárlagaskrifstofa Hvíta hússins, sem hefur það hltuverk að samræma aðgerðir forsetaembættisins við aðrar athafnir ríkisstjórnarinnar, fékk fyrirmæli um að bera ferðabannið ekki undir dómsmála-, utanríkis-, heimavarnar-, og varnarmálaráðuneyti landsins, eins og venja er þó fyrir.
Nýskipaður heimavarnarráðherra, John Kelly, var í miðri flugferð þegar bannið tók gildi á föstudag. Frétti hann fyrst af því þegar aðstoðarmaður hans, sem var að tala við hann í síma, sá undirskriftarathöfnina í sjónvarpinu á meðan símtalinu stóð, samkvæmt umfjöllun New York Times.