Donald Trump forseti Bandaríkjanna hefur rekið starfandi dómsmálaráðherra landsins úr starfi eftir að hún efaðist um lögmæti ákvörðunar hans um að banna fólki frá sjö ríkjum að koma til landsins.
Starfandi dómsmálaráðherra, Sally Yates, hafði skömmu fyrir brottvikninguna skipað lögmönnum dómsmálaráðuneytisins að fara ekki að tilskipun forsetans.
Dana Boente, saksóknari í austurhluta Virginíu, hefur tekið við starfi dómsmálaráðherra tímabundið. Hann hefur fyrirskipað starfsfólki ráðuneytisins að fylgja skipun Trump varðandi bann við komu fólks frá ríkjunum sjö til Bandaríkjanna.
Í fréttatilkynningu frá forsetaembættinu kemur fram að Yates hafi svikið ráðuneytið. Í bréfi sem Yates skrifaði segist hún ekki vera sannfærð um að tilskipun forsetans væri lögum samkvæmt. Svo lengi sem hún væri starfandi dómsmálaráðherra myndi ráðuneytið ekki framfylgja aðgerðum sem ekki stæðust lög landsins.
Frétt mbl.is: Engir hagsmunir í ríkjunum sjö
Trump lét ekki þar við sitja því hann lét víkja yfirmanni innflytjenda- og tollamála úr starfi en sá hafði verið skipaður í embætti í valdatíð Obama.
Engin ástæða var gefin fyrir brottvikningunni í nótt en tilkynnt var um að Daniel Ragsdale léti af störfum innan við klukkutíma eftir að Trump rak Yates úr embætti.
Thomas Homan tekur við starfinu af Ragsdale og segir í tilkynningu John Kelly heimavarnaráðherra að ráðning hans muni tryggja að banni við komu fólks frá ríkjunum sjö verði fylgt með hagsmuni þjóðaröryggis að leiðarljósi.